138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það hvernig haldið hefur verið á samskiptum við útlönd í þessu máli öllu saman. Í þeim birtist býsna margt. Ég ætla að nefna tvennt, — hv. þingmaður kom reyndar inn á þetta en ég ætla að nefna þetta til að setja í samhengi við spurningu mína til þingmannsins — annars vegar þann samskiptaskort, sem birtist m.a. í því að almennir borgarar fá meiri viðbrögð heldur en ríkisstjórnin, enda hefur hún ekkert verið að leita eftir þeim. Hins vegar viðhorfið til alþjóðasamfélagsins, það viðhorf sem birtist í yfirlýsingum stjórnarliða að ef við svo mikið sem förum fram á að lagaleg staða okkar sé rædd, þá megum við eiga von á einhverjum ógurlegum refsiaðgerðum, jafnvel efnahagslegri árás, nánast einhvers konar efnahagslegum hernaði gegn okkur, þar sem þessi ríki munu beita sér fyrir því að við höfum verra af, ef svo má segja, þrátt fyrir að það standist náttúrlega engin rök, enda eiga þau ríki sem borin eru þessum sökum gríðarlega mikið undir því að íslenskt efnahagslíf rétti úr kútnum. Því velti ég fyrir mér, hvað veldur þessu hugarfari. Enn frekar velti ég fyrir mér þriðja atriðinu og það er að í þessum samskiptum við útlönd hafa íslensk stjórnvöld ekki reynt að ryðja úr vegi hindrunum í málinu heldur þvert á móti reynt að ryðja úr vegi lausnum. Til að útskýra hvað ég á við með því má nefna sem dæmi tölvupóst hæstv. forsætisráðherra til forsætisráðherra Noregs þar sem beðið er um að allar hugmyndir um lánafyrirgreiðslu þaðan án aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu slegnar út af borðinu. Með öðrum orðum, menn vilja ekki góðar fréttir. Þeir vilja halda uppi hræðsluáróðri (Forseti hringir.) varðandi útlönd. Hver getur ástæðan verið?