138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

samskipti ráðuneytisstjóra við AGS.

[12:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég get ekki fallist á það að ég sé nokkrum mánuðum of sein með þetta vegna þess að við þingmenn erum bundin trúnaði gagnvart þeim gögnum sem ráðherrann vísar til og spyr hvort ég hafi lesið. Það er fyrst núna þegar þau hafa verið gerð opinber á þessari heimasíðu að við getum farið að ræða þau. Við þingmenn höfum ekki mátt ræða þau frekar en svo margt annað í þessu máli.

Ráðherrann segir að hann hafi ekki vitað um þetta. Ég hnykki á spurningunni: Er það æskilegt að svona sé farið með gögn eða er það stranglega bannað? Ég hef verið að kalla eftir gögnum. Mun hæstv. ráðherra koma með mér í lið og aðstoða mig við að komast að því hvort það séu fleiri gögn geymd einhvers staðar á einkanetföngum hjá Indriða H. Þorlákssyni eða einhverju öðrum? Ég get ekki treyst því. Ráðherrann segir að það eigi ekkert í þessum tölvupósti að koma mér á óvart en ég get ekki treyst því að það séu ekki einhverjir aðrir tölvupóstar sem mundu kannski koma mér meira á óvart en þessi ákveðni tölvupóstur. Ég spyr (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra: Ætlar hann að koma með okkur í lið og grafast fyrir um hvort sem við vitum ekki um gögn liggja hingað og þangað (Forseti hringir.) um netheima?