138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

breytingar á frítekjumarki.

[12:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég skil þau þannig að menn ætli að vinna breytingarnar í vor og leggja fram nýtt frumvarp sem taki þá gildi á árinu 2011. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta komi fram svo við gefum ekki falskar vonir um að einhver leiðrétting verði á næsta ári. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þetta komi fram. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli útskýra þetta vegna þess að ég brenndi mig á því í fjárlaganefndinni þegar sem ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um þá leiðréttingu sem átti að eiga sér stað gagnvart sveitarfélögunum um hækkun tryggingargjalds. Þá sagði hæstv. fjármálaráðherra að leiðréttir yrðu þeir 2 milljarðar sem kæmu á sveitarfélögin en við það virðist ekki eiga að standa. Ég fagna því sérstaklega þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að stefnt sé að því að þetta taki þá gildi árið 2011 þannig að menn tali um hlutina eins og þeir eru.