138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[15:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að iðulega hefur verið ágætissamstarf á milli félagsmálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis. Þess vegna hélt ég að til þess að fá heildarmyndina hvað þetta tiltekna atriði varðar — ungt fólk, atvinnulaust fólk, fólk sem þarf á aukinni menntun að halda — að menn hefðu einhver svör við því hver heildarmyndin yrði. Ég hvet því ríkisstjórnina og menntamálaráðherra til þess að koma sem fyrst fram með frumvarpið um framhaldsfræðsluna.

Varðandi starfsmennina verð ég að segja, og ég segi það nú kannski líka sem gamall stjórnarmaður í Vinnumálastofnun, til nokkurra ára, að ég tel að Vinnumálastofnun hafi í heildina séð farnast vel. Hún hefur hugsað vel um ákveðin svið sem hefur þurft á að halda. Engu að síður er ég ósammála því að ekki sé hægt að hagræða innan stofnunarinnar eins og í öðrum ríkisstofnunum og fara inn á þessi tilteknu málasvið sem ráðherra er að beina þeim að án þess að fara þurfi út í fjölgun starfsmanna.

Nefna má nýlegt dæmi, það sem nefnt var í fjölmiðlum, varðandi stjórnir, ráð og nefndir innan Vinnumálastofnunar, að þar sé hægt að ná fram ákveðnum sparnaði. Ég er sannfærð um að hægt er að ná sparnaði innan Vinnumálastofnunar eða fara í þessi verkefni án þess að menn dembi sér beint í fjölgun starfsmanna í ríkisgeiranum. Öðru eins stendur einkageirinn frammi fyrir, að reyna að halda uppi verkefnum með því að setja aukna framleiðslu og verðmætasköpun á hendur þeirra starfsmanna sem fyrir eru. Það á að gera sömu aðhaldskröfur til starfsmanna ríkisins, sem standa sig auðvitað gríðarlega vel, en þeir verða einfaldlega að horfa til þess hvaða ástand er í samfélaginu.

Varðandi sveitarfélögin vil ég einfaldlega hvetja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra til að hafa mjög náið samstarf við sveitarfélögin. Það er alveg óþarfi að efna til æsinga á milli ríkis og sveitarfélaga, nóg er nú samt.