138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[17:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra kom víða við í ræðu sinni en það sem ég vildi spyrja hann að er fæðingarorlofið og niðurskurður á því eða frestun á einni greiðslu sem á spara en allur pakkinn á að spara 1.000 milljónir á ári. Á sama tíma er hæstv. ráðherra að samþykkja í hæstv. ríkisstjórn afnám sjómannaafsláttar sem líka sparar einn milljarð á ári, en þar fara menn miklu mildilegri höndum um málið því að það á ekki að taka gildi fyrr en 2011, 2012 og 2013 þegar kreppan er eiginlega búin.

Það vill svo til að fólk sem á von á barni núna í janúar, það barn er löngu getið, það verður ekkert hætt við það og þetta er dálítið undarlegt að ráðast á þá sem geta ekki hætt við en sjómönnum, sem hafa hækkað mikið í tekjum undanfarið, mjög mikið, vegna lækkunar á gengi krónunnar, skal hlíft.

Svo vildi ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig samræmist þetta? Hann hefur haldið fjögur andsvör um Icesave og af því að mér hefur aldrei tekist að særa hann í efnislega umræðu um það mál, hann hefur talað sem sagt í fjórar eða fimm mínútur samtals um það mál og ekki efnislega, þá er þetta sem hann er að tala um hér upp á 1,1 milljarð tíu daga vextir af Icesave.