138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:23]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og ítreka að ég nefndi náttúrlega tvær aðrar leiðir sem mér finnst að við ættum að skoða miklu frekar og helst fara í staðinn fyrir að fara í neins konar skerðingu á fæðingarorlofskerfinu frekar en orðið er. Ég sagði í ræðu minni að mér hugnaðist frekar fyrri leiðin sem hæstv. ráðherra boðaði sem var að skerða þakið og hlífa þá þeim sem hafa minnstar tekjur. En ég hef efasemdir um að þetta þurfi endilega, og það er ástæðan fyrir því að mér þykir þessi leið betri, ég er ekki viss um að þetta leiði endilega til þess að tekjuhærra foreldrið nýti sér ekki réttinn sem það hefur bara fyrir sig til að nýta fæðingarorlofið. Ég held að það geti vel verið að það að hafa miklar tekjur auki svigrúm fólks til að taka á sig tímabundna tekjuskerðingu, ég held að sá þáttur hljóti að vera einhver í þessu. Ég held hins vegar að við séum komin að sársaukamörkum í þessu og ítreka það að ég vil frekar skera niður annars staðar eða þá að vinna frekar í tekjustofni þessa kerfis. Ég vona að þetta svari spurningunni nokkurn veginn vegna þess að ég held að leiðin sem hæstv. félagsmálaráðherra boðar núna — jafnvel gegn vilja sínum eins og ég skildi það en ég er ekki alveg viss — að skerða mánaðafjöldann, leiði náttúrlega til þess að verið er að krukka í því grundvallaratriði að barnið sjálft njóti annars foreldrisins og þá yfirleitt móðurinnar í sex mánuði, sem er akkúrat sá tími, eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir benti á, sem ráðlagt er að börn njóti brjóstamjólkur.