138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

hlutur heilbrigðisráðherra í mótmælum í janúar.

[10:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Í mótmælaaðgerðunum sl. vetur voru margir sem hlutu pústra, margir sem hlutu meiðsl, sérstaklega í augum og lungum, og ýmsir sem hlutu aðra áverka. Mér er ekki kunnugt um hversu varanlegan skaða menn hafa hlotið vegna þessa. En ég minni á að þegar mótmælendur mynduðu skjaldborg fyrir framan lögreglumenn við Stjórnarráðshúsið þar sem, samkvæmt viðtali við þann hinn sama formann Lögreglufélagsins og hv. þingmaður vitnaði til, ótíndir glæpamenn sem töldu sig eiga einhverra harma að hefna við lögregluna persónulega, notuðu tækifærið undir yfirskini mótmæla til að veitast að lögreglunni með grjótkasti í þeim tilgangi að meiða. Þar komu mótmælendur og mynduðu skjaldborg fyrir lögregluna (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) og það var rétt. Ég vil taka fram að ég tel að þeir sem hlotið hafa einhver meiðsl af þessu eða öðru eigi að nýta allan þann rétt sem þeir hafa til að sækja bætur og leiðréttingu sinna mála, (Forseti hringir.) hvort heldur þeir eru í lögreglunni eða utan hennar.