138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi greinargóðu svör, það er ekki aðeins að hér komi frískur tónn hjá hv. þingmanni. Þótt hann skammi okkur sjálfstæðismenn er það allt í lagi. Ég er hins vegar afskaplega ánægður með að heyra þessa skýru afstöðu hv. þingmanns til beggja þessara mála.

Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni, flatur niðurskurður er stórhættulegur. Hv. þingmaður þekkir vel til á sjúkrahúsinu á Akureyri sem er bara annað sjúkrahús á landinu með gjörgæslu. Ef menn halda áfram í flata niðurskurðinum verður milljarði minna umleikis hjá þeim spítala 2012 en núna og umfangið er ekki meira en 4,5 milljarðar. Það mundi þýða endalaust sjúkraflug til Reykjavíkur sem enginn græðir á og þjónustan hrynur ef menn ætla að halda áfram á þessari leið. Nú reynir á hv. þingmann og okkur þingmenn að koma í veg fyrir þessi slys, þessi tvö slys, og ég (Forseti hringir.) hlakka til að vinna með hv. þingmanni að því að koma í veg fyrir þau.