138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[18:48]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um tímabundna breytingu á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna á árunum 2010, 2011 og 2012 vegna annarra þátta.

Þetta frumvarp er lagt fram í kjölfar undirritunar sameiginlegrar yfirlýsingar iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og Samtaka atvinnulífsins og stórnotenda raforku hins vegar en það var undirritað þann 7. desember sl. Þessir aðilar eru sammála því að skattur á raforku, sem er 0,12 kr., eigi við um þá, en auk þess höfum við samkvæmt þessari yfirlýsingu orðið sammála um ráðstafanir sem hafa það að markmiði að stuðla að aukinni tekjuöflun ríkissjóðs á árunum 2010, 2011 og 2012 ásamt því að örva fjárfestingar hér á landi í því skyni að stuðla að atvinnusköpun og bættum hag þjóðarbúsins. Í umræddri yfirlýsingu kemur fram að vegna mikils samdráttar í efnahagslífinu og erfiðrar stöðu ríkissjóðs í kjölfar hans hafi það orðið að samkomulagi við nokkra stærstu notendur raforku í landinu að þeir greiði fyrir fram tæplega 1,2 milljarða kr. árlega á áðurnefndum árum upp í væntanlega álagningu á tekjuskatt og öðrum opinberum gjöldum á árunum 2013–2018. En til að unnt sé að koma þessari fyrirframgreiðslu skatta í framkvæmd þarf Alþingi að veita heimild í lögum til að gera nauðsynlegar breytingar á þessum fjárfestingarsamningum og líka aðalsamningum sem í gildi eru milli stjórnvalda og viðkomandi notenda raforku.

Með þessu frumvarpi er því lagt til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild að gera viðauka fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands við fjárfestingarsamninga vegna Norðuráls á Grundartanga og álvers Alcoa í Reyðarfirði sem og viðauka við aðalsamning vegna álvers Alcan í Straumsvík og járnblendiverksmiðju Elkem í Hvalfirði. Er frumvarp þetta samið í samráði við fjármálaráðuneytið og embætti ríkisskattstjóra þar sem efnisatriði þess snúa að fyrirframgreiðslu skatta og opinberra gjalda.

Með frumvarpinu er lagt til að heimilað verði með breytingum á viðkomandi heimildarlögum að við viðkomandi fjárfestingarsamninga og aðalsamninga bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, verði fjármálaráðherra heimilt að kveða sérstaklega á um í reglugerð að viðkomandi félög skuli greiða fyrir fram í þremur jöfnum greiðslum á árunum 2010, 2011 og 2012 upp í væntanlega álagningu á tekjuskatti og öðrum opinberum gjöldum á árunum 2013–2018. Fjárhæð fyrirframgreiðslunnar skal taka mið af hlutfallslegri raforkunotkun viðkomandi félags eftir því sem kveðið er nánar á um í viðkomandi fjárfestingarsamningi. Þann 7. desember árið 2009 var samhliða undirritun áðurnefndrar yfirlýsingar gengið frá undirritun viðaukasamnings þessa efnis vegna álversins í Straumsvík auk þess sem áritaðir voru viðaukasamningar vegna álvers á Grundartanga, álvers í Reyðarfirði og járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Í þeim viðaukasamningum kemur nánar fram hvernig hin árlega fyrirframgreiðsla mun skiptast á milli þessara fjögurra fyrirtækja og er nánari umfjöllun um það, virðulegi forseti, að finna í greinargerð með frumvarpinu. Eins og fram hefur komið í kostnaðarumsögn verður ekki séð að það muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs þótt það muni hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Ég hef nú gert grein fyrir því samkomulagi sem orðið hefur á milli ríkisvaldsins annars vegar og stórnotenda og stórkaupenda raforku hins vegar. Við höfum fallist á þessa niðurstöðu til að mæta þeirri bágu stöðu sem ríkissjóður er í og þessir stóru greiðendur skatta hér á landi munu koma með þessum hætti inn í það uppbyggingarstarf sem fram undan er, bæði eins og hér hefur verið kveðið á um en jafnframt mun raforkuskattur sá sem lagður hefur verið á auðvitað hafa töluverð áhrif á fyrirtækin. Eiga miklir skattar eftir að koma frá þeim með þessari leið, virðulegi forseti, sem mun verða verulega til góðs fyrir ríkissjóð á erfiðum tímum.