138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú ágætlega notalegt að vera komin í andsvör við hæstv. ráðherra og vera sammála honum aldrei slíku vant. Ég get tekið undir það sem hæstv. ráðherra sagði hér, bæði hvað varðar Suðurnesjamenn og einnig varðandi Fjárfestingarstofu. Ég þekki það opinbera fyrirtæki ágætlega. Það er nú útúrdúr en reyndar var það mín fyrsta vinna eftir framhaldsnám í Bandaríkjunum að skrifa bæklinga fyrir það fyrirtæki sem þá hét Invest in Iceland Agency, þannig að þetta rifjar upp gamla tíma. Það er alveg rétt, margir góðir hlutir hafa verið unnir með markvissum hætti undanfarin ár og þetta er eitt af þeim verkefnum sem er afraksturinn af þessari góðu vinnu. Þetta gerist ekki af sjálfu sér.

Hæstv. ráðherra talaði um öll þau tækifæri sem eru að skapast á Suðurnesjum og verða vonandi að veruleika, það er fátt sem er fast í hendi en uppi eru miklar hugmyndir um kísilver og nú þetta gagnaver. Það er uppbygging í ferðaþjónustu og það eru alls lags hugmyndir fyrir utan Helguvík. Þær hafa verið settar fram og unnið er að þeim af miklum krafti og elju. Það er mikið haft fyrir þessu. Ég hlakka til þess dags þegar allt þetta verður komið í höfn og 1.600 Suðurnesjamenn gangandi ekki lengur um atvinnulausir, þegar allt verður vaðandi í tækifærum þar, ef ég fæ að nota frekar óheflað orðalag hér í ræðustól Alþingis.