138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[23:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég neita því að talað sé til mín þannig að ég trúi öllu, að allt sé gott sem kemur frá Evrópusambandinu. Ég hef ekki sagt það hér í kvöld. Ég hef sagt að þessar reglur séu flóknar en ég hef hins vegar sagt að við þurfum að komast í gegnum þær og læra að vinna með þær. Mér fyndist allt í lagi að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hlustaði og legði ekki fólki orð í munn.

Ég hef unnið með Evrópureglurnar með lyf og þekki þær mætavel. Ég veit að þær hafa verið framkvæmdar hér á landi eins þröngt og mögulegt er. Ég veit líka að kostnaður sem lyfjainnflytjendur segja að sé við að koma íslenskum fylgiseðlum eða merkingum á pakka er mjög orðum ýktur. Ég segi þetta og ég skal setjast niður með hv. þingmanni og útskýra þetta allt nánar fyrir honum. Ég bið hann um að hlusta og leggja mér ekki orð í munn.