138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Töf mín stafaði af því að mér var ekki hleypt í ræðustól af hv. þingmönnum sem væntanlega hafa ekki haft áhuga á því að ég kæmist upp með þetta mál.

Svo háttar til að í morgun var fundur í fjárlaganefnd Alþingis og honum er nýlokið. Þar ræddum við ýmis skemmtileg mál. Meðal annars var lagt fram álit Ríkisendurskoðunar, dagsett í gær, varðandi heimild í fjáraukalögum um ráðstöfun á hlutafé ríkisins í Íslandsbanka og Arion banka hf.

Klukkan tvær mínútur yfir átta í gærkvöldi samþykkti Alþingi Íslendinga fjáraukalög. Stjórnarandstaðan benti við þá umræðu á að við hefðum haft takmarkaðan tíma til að fara ofan í og rýna öll gögn málsins enda kemur í ljós að það er engin heimild til handa ríkisstjórninni fyrir sölu eða ráðstöfun á því hlutafé sem hér um ræðir. Þetta er staðfest í áliti Ríkisendurskoðunar sem segir afdráttarlaust að gera þurfi grein fyrir þessu í fjáraukalögum því hlutafélögin voru stofnuð með 100% hlut ríkisins á sínum tíma.

Í ljósi umræðunnar um einkavæðingu bankanna á sínum tíma spyr maður sig hvernig Vinstri grænir ætla að fara í þetta mál. Geta þeir horft til þess að eignum ríkisins sé ráðstafað með þessum hætti í algeru heimildarleysi? Hvað er þá næst? Verður Landsvirkjun eða Íslandspóstur afhentur einhverjum kunningjum úti í bæ, ógagnsætt og án skilmála, án þess að fyrir liggi lagaheimildir Alþingis? Ég óska eftir því að hv. þm. Björn Valur Gíslason (Forseti hringir.) gefi mér nokkur svör við þessum spurningum.