138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

70. mál
[11:44]
Horfa

Frsm. viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að taka til máls undir þessum lið. Ég verð að segja að ég er sammála hv. þingmanni um að mjög brýnt sé að byggja upp traust á íslensku atvinnulífi og þetta frumvarp, sem hv. viðskiptanefnd leggur til að verði samþykkt, er skref í þá átt. Í frumvarpinu er leitast við að styrkja stöðu minni hluthafa með því m.a. að gefa þeim lengra ráðrúm til að komast á hluthafafund. Þeir fá að vita þremur vikum fyrir hluthafafund hvenær hann á að vera í stað þess að fá upplýsingar um það einni viku fyrir fundinn. Auk þess leggur frumvarpið til hvaða upplýsingar fyrirtæki þurfi að setja á vef sinn um þau mál sem ákvarðanir verða teknar um á hluthafafundinum.

Frumvarpið er, eins og ég sagði áðan, náttúrlega bara lítið skref í þá átt að byggja upp traust á íslenskum fyrirtækjum. Það gerir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sér mjög góða grein fyrir og hefur látið lagastofnun Háskóla Íslands gera úttekt á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög með það að markmiði að finna leiðir til að styrkja þessa löggjöf. Þess má vænta á næstunni að hæstv. ráðherrar leggi fram frumvarp sem styrkir enn frekar stöðu hluthafa, sérstaklega minni hluthafa. Það eru allt skref í átt að því að byggja upp traust á íslensku efnahagslífi.