138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

fundargerðir af fundum ráðherra með erlendum aðilum.

270. mál
[13:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir þessa fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra. Það var greinilega þörf á henni því að hér koma fram mjög alvarlegar upplýsingar þar sem hæstv. utanríkisráðherra telur fullkomlega eðlilegt að ekki séu skrifaðar fundargerðir eða minnispunktar af fundum sem hæstv. utanríkisráðherra situr með háttsettum erlendum aðilum í okkar stærstu milliríkjadeilu.

Þrátt fyrir að hæstv. utanríkisráðherra komi á fundi hv. utanríkismálanefndar og flytji þar skilaboð af þessum fundum er ekki þar með sagt að hæstv. utanríkisráðherra skilji þá fundi með sama hætti og embættismenn annarra þjóða. Þetta er mjög alvarlegt mál. Hér viðurkennir hæstv. utanríkisráðherra að það eru engin skrifleg gögn til (Forseti hringir.) sem styðja málstað Íslendinga í þessari stóru milliríkjadeilu.