138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

flutningur verkefna til sýslumannsins á Patreksfirði.

125. mál
[14:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa fyrirspurn en mér finnast svör hæstv. félagsmálaráðherra vera frekar rýr. Hann segir að ekki hafi verið færð nógu mikil rök fyrir því hagræði sem hlytist af þessum tilflutningi og vitnar til þeirra stofnana sem flytja átti verkefnið frá. Því vil ég góðfúslega biðja hæstv. félagsmálaráðherra að koma þeim gögnum og röksemdum til okkar þingmanna um hvernig þau fá það út.

Þegar færa á verkefnin er stjórnsýslukerfið í Reykjavík þannig að það er ekki mikið hagræði að færa það út á land. Mig langar af því tilefni að minna á að úti á landsbyggðinni á þessum stofnunum er margfalt minni starfsmannavelta, mikið lægri húsaleigukostnaður og margt annað sem ýtir undir þá staðreynd að við eigum frekar að flytja verkefni út á landsbyggðina en frá henni. En því miður er hæstv. ríkisstjórn nú þegar búin að taka ákvörðun um að sameina þrjár nefndir, þ.e. rannsóknarnefndir umferðarslysa, flugslysa og (Forseti hringir.) sjóslysa, og það á að færa það allt til Reykjavíkur án þess að skoða það frekar.