138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[21:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst segja við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson að fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eru mér hulin ráðgáta og hafa verið síðan ég kynntist þeim fyrir tæpum þremur árum. Þar er þessi ríkisstjórn síst verri en fyrri ríkisstjórnir. En varðandi þá 2,2 milljarða sem áætlaðir eru í kostnað fyrir sveitarfélögin þá voru það útreikningar sem voru líka miðaðir við greinarnar þar sem biðtími lengist eftir atvinnuleysisbótum sem nefndin samþykkti ekki. Við viljum ekki gera þessar breytingar að svo stöddu.

Í frumvarpinu kemur fram að áætlaður sparnaður af því að námsmenn verða ekki á atvinnuleysistryggingabótum á sumrin í námsleyfum er 370 millj. kr. á næsta ári. Nú er fjárhagsaðstoð sveitarfélaga mun lægri en atvinnuleysisbætur þannig að ég trúi því ekki að kostnaður sveitarfélaganna verði meiri, en ég sagði áðan við hv. þingmann að ríkisstjórnin er nú í samráði við sveitarfélögin út af kostnaðarauka sveitarfélaga og stöðu sveitarfélaga að fara yfir þessi mál. Ég tel að það sé góð verkstjórn í ríkisstjórninni, hún kunni vel til verka en aðstæður eru með slíkum hætti að það væri fráleitt að telja að hér ætti allt að geta gengið eins og smurt. Hér er allt á öðrum endanum en ríkisstjórnin ber sig af mikilli festu og dugnaði í þeim erfiðu málum sem verið er að fást við.