138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[22:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því sem hv. þm. Sigríður I. Ingadóttir sagði, að hún mundi beita sér fyrir því að láta kostnaðarreikna frumvörpin. Þeirri yfirlýsingu hv. þingmanns fagna ég sérstaklega. Það er reyndar samningur á milli ríkis og sveitarfélaga um að þetta skuli gert og það er bagalegt þegar menn sleppa því að gera þetta til að vita hvað verið er að færa á milli. Það er líka mjög mikilvægt á þeim tímum sem nú eru að breyta samskiptum sveitarfélaga og ríkisins. Þau eru oft og tíðum eins og þegar stjórnarandstaðan og stjórnarþingmenn eru upp á sitt besta í einhverjum hanaslag, við verðum að breyta þessu. Við þurfum ekki að stofna til deilna, við höfum því miður nóg af vandamálum og ég fagna sérstaklega þessari yfirlýsingu hv. þingmanns.

Ég vil taka undir það sem hún segir, og það er líka mjög vandmeðfarið, og ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni, að við megum ekki gera þetta þannig að allir sem þiggja bætur séu gerðir að einhverjum sökudólgum. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um það. Eins og ég sagði áðan er sárt að horfa upp á fólk sem lendir í því að missa atvinnu sína og getur ekki séð fyrir sér og sínum eins og oft er sagt. Það getur oft verið erfitt, ég skal alveg viðurkenna það, að finna einhverja línu sem hentar öllum en við verðum samt að hafa úrræðin með þeim hætti að ekki sé verið að svíkja út bætur. Hvort sem þú ert að svíkja út atvinnuleysisbætur eða stela undan skatti eða virðisaukaskatti, vinna svart eða hvernig sem það er, þá er það sami gjörningurinn. Þú ert að taka fé frá ríkissjóði sem þú átt sannarlega ekki rétt á. Ég bendi á að á næsta ári greiðum við 30 milljarða í atvinnuleysisbætur. Þetta eru engar smátölur. Við borgum jafnmikið í atvinnuleysisbætur og það kostar að reka Landspítalann. Það er því gríðarlega mikilvægt að við komum böndum á þetta.