138. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[00:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð út af seinna andsvari hæstv. ráðherra að leiðrétta mjög margt sem kom fram í máli hans. Það er auðvitað mjög alvarlegt ef hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra er með þessar ranghugmyndir um þann mikilvæga málaflokk sem um ræðir. Bara svona til upprifjunar, og þetta ætti hæstv. ráðherra að þekkja, var aldrei samið um það í tíð Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að heilbrigðisþjónustan færi með öldrunarþjónustunni. Þvert á móti. Þegar talað var um að flytja málefni aldraðra var tekið sérstaklega fram að heilbrigðisþjónustan yrði áfram í heilbrigðisráðuneytinu. Nú ætla menn hins vegar að færa — og það er það sem hæstv. ráðherra gekkst auðvitað við — og taka 20 milljarða af heilbrigðisþjónustunni og færa yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Það hefur að sjálfsögðu ekkert með það að gera hvort öldrun sé sjúkdómur eða ekki. Öldrun er auðvitað ekki sjúkdómur. Þetta er grundvallarmisskilningur hjá hæstv. ráðherra því það fer enginn inn á hjúkrunarheimili nema hann sé veikur, meira að segja mjög veikur. Það hefur verið gagnrýnt að vistunarmat, sem er til staðar núna, er þannig úr garði gert að mörgum finnst það vera of strangt.

Það er líka misskilningur, virðulegi forseti, að þetta hafi bara með þá að gera sem eldri eru. Það er alvarlegt að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, sem ætlar að taka yfir þessa 20 milljarða af heilbrigðisþjónustunni, átti sig ekki á því að þarna eru líka hjúkrunarheimili og hjúkrunarrými fyrir þá sem yngri eru því að hjúkrunarheimili eru heilbrigðisstofnanir og þar er fólk á öllum aldri þó svo sannarlega stærri hlutinn sé eldri borgarar sem þar fer inn, það er þó ekki algild regla. Ástæðan fyrir því að eftirspurn er eftir heilbrigðisþjónustu almennt er sú að eftir því sem fólk verður eldra þarf það á meiri þjónustu að halda og eftir því sem eldri kynslóðir verða stærri eykst eftirspurnin eftir slíkri þjónustu. En hjúkrunarheimili eru bæði fyrir þá eldri og yngri.

Það er líka misskilningur hjá hæstv. ráðherra að þetta sé vandræðalaust. Það hefur komið fram að engin svör eru frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu hvernig eigi að taka við þessum málaflokki. Þeir vita ekki hver á að sjá um kaup á þjónustu, hvort það eru Sjúkratryggingar Íslands eða einhver annar aðili hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Það er alveg ljóst að engin yfirsýn verður í málaflokknum, sem er mjög hættulegt þar sem mikilvægt er að hafa yfirsýn yfir heimahjúkrunina og skammtímavistunina. En núna verður hluti af þessu, þ.e. heimahjúkrun og skammtímavistun sem og hjúkrunarrýmin á sjúkrahúsum eftir í heilbrigðisráðuneytinu, en hjúkrunarheimilin, sá þáttur heilbrigðisþjónustunnar fer í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Það er því deginum ljósara að þetta er mikið flækjustig og mun koma beint niður á þjónustu við sjúklinga fyrr en seinna. Og svo því sé til haga haldið fer enginn á hjúkrunarheimili af því að hann velur það sem eins konar félagslegt búsetuúrræði, fólk fer ekki á hjúkrunarheimili nema það sé veikt. Það er mjög mikilvægt þegar hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra talar um þessi mál að hann tali með þeim hætti. Hann verður að gangast við því að hér er um heilbrigðisþjónustu að ræða, hann verður að átta sig á því að það fer enginn inn á hjúkrunarheimili nema viðkomandi hafi farið í gegnum vistunarmat og önnur úrræði séu ekki fyrir hendi. Það er áhyggjuefni, virðulegi forseti, að heyra hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra tala með þessum hætti því að hér er augljóslega um grundvallarmisskilning að ræða.

Þegar við erum að tala um hvorki meira né minna en tilflutning upp á 20 milljarða í heilbrigðisþjónustu yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra í þingræðu afhjúpar þetta þekkingarleysi þá hefur maður enn meiri áhyggjur en maður hafði áður. Þetta er augljóslega grundvallarmisskilningur hjá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og við getum ekki unnið með þessum hætti. Það hefur ekki verið kallað eftir einni einustu umsögn í tengslum við þetta stórmál. Ég er að tala um verkefnatilflutning upp á 20 milljarða og meira að segja hefur ekki, þvert á það sem hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sagði áðan, verið haft samband við hagsmunasamtök. Ég og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir áttum fund með forustumönnum Samtaka eldri borgara um daginn og þau höfðu ekki hugmynd um þetta, ekki hafði verið talað við þau út af þessu máli, þannig að hér er á ferðinni afskaplega alvarlegt mál.

Ég ætla, virðulegi forseti, aðeins að ræða líka út af orðaskiptum sem voru góð og skemmtileg á milli hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur og hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur, að mér fannst koma fram hjá hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur sú afstaða sem maður sér oft hjá samfylkingarfólki og það er svolítið blind trú á Evrópusambandið, að menn séu búnir að ná fullkomnun í að vera til þar og það kerfi sé eitthvað sem er algerlega gallalaust. Það er auðvitað mikill misskilningur. Þetta hefur hins vegar komið fram í mörgu og hér vitnaði hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir í ýmis ummæli í tengslum við EES-samninginn og í því samhengi mætti rifja ýmislegt upp, t.d. að fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins talaði mikið um það, og Samfylkingin einnig, að með EES-samningnum hefðu Íslendingar fengið allt fyrir ekki neitt. Það stenst ekki. Við fengum m.a. Icesave-tilskipunina með EES-samningnum og ég held að enginn geti haldið því fram að það hafi verið algerlega ókeypis.

Samfylkingin talar sömuleiðis mikið um að góðærið hafi allt verið EES-samningnum að þakka og ekkert um neina efnahagsstjórn að ræða. Ég hef hlustað á þann söng í mörgum kosningum. Það er liður í því að Samfylkingin vill ekki alveg kannast við að hafa komið að stjórnartaumunum. Þeir hafa bæði haft áhrif í ríkisstjórn og utan ríkisstjórnar og var m.a. einn af fyrirrennurum Samfylkingarinnar í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum 1991–1995 og svo 2007–2009 vegna þess að hér er enn og aftur tönnlast á því að þessi 18 ár væru Sjálfstæðisflokknum að kenna. Við erum að vísu stoltir af flestu því sem við gerðum á þeim tíma en það er samt sem áður þannig, þó að við höfum auðvitað gert mistök eins og gengur og sum stærri en önnur, að Sjálfstæðisflokkurinn var ekki eina einustu mínútu af þessum 18 árum með bankamálaráðuneytið en án nokkurs vafa voru stærstu mistökin gerð þar yfir það tímabil.

Síðan vil ég að lokum, virðulegi forseti, þegar verið er að tala um vinnumarkaðsmál — mér fannst margt mjög gott sem kom fram hjá hæstv. ráðherra — hvetja aðila sem fjalla um þau, sérstaklega hv. þingmenn, að skoða ástandið eins og það er í Evrópusambandinu því að þar eru menn með það markmið að reyna að samræma vinnumarkaðinn, það er yfirlýst markmið Evrópusambandsins og menn hafa unnið jafnt og þétt að því. Það sem einkennir stóran hluta og stærstu löndin og líka Norðurlöndin, af því að minnst var á Svíþjóð, er þessi gríðarlegi ósveigjanleiki sem er meðal annars kannski stærsta einstaka ástæðan fyrir miklu atvinnuleysi í þessum löndum. Það virðist litlu máli skipta þó að mikið góðæri sé oft á tíðum í þeim ríkjum þá er atvinnuleysi samt sem áður mikið. Maður hefur heyrt á fólki, Íslendingum sem hafa stundað atvinnurekstur hve mikill munur er á vinnuumhverfi þar og hér og enginn vafi er um að það sem er skilgreint sem réttindi fólks þar er þess eðlis að það kemur í veg fyrir að fyrirtæki ráði fólk, við getum orðað það svo að það sé ekki gert nema brýn nauðsyn sé til vegna þess að réttindin eru slík að mjög erfitt er að segja fólki upp eða breyta til. Það er það sem menn kalla ósveigjanleika. Við erum með sveigjanleika, það er mjög dýrmætt. Við eigum að hafa það að markmiði og ég var glaður að heyra það hjá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra að það var markmiðið hjá honum og í það fyrirkomulag skulum við halda. Ég hvet hv. þingmenn, sama í hvaða flokki þeir eru, að skoða stöðuna í öðrum löndum, sérstaklega í Evrópusambandinu. Vítin eru til að varast þau og við skulum aðeins taka það góða frá nágrönnum okkar en láta hitt eiga sig.