138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

stuðningur við fyrirhugað gagnaver.

[10:50]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Sú er hér stendur ætlar sér ekki sjálf að gera það heldur verður það gert með nýju fjármagni sem veitt verður inn í verkefnið. Ef hv. þingmaður veit hvað það er að vera ráðandi eigandi í svona fyrirtæki þá er það ekki að eiga 40%. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að þetta … [Frammíköll í þingsal.]

Virðulegi forseti, ég held að hv. þingmenn séu að óska eftir því að komast á mælendaskrá vegna þess að ekki ætla þeir að gefa þeirri er hér stendur frið til að svara spurningunni.

Rúmlega 60% af þeim sem eiga í þessu fyrirtæki og keyra verkefnið áfram núna (Gripið fram í.) eru í hlutafjáraukningu. Þetta eru bandarískir aðilar og hv. þingmaður á ekki að brigsla starfsmönnum og stjórnendum þessa fyrirtækis eða General Catalyst um að standa á bak við eitthvert Icesave-ævintýri á Íslandi. Það þarf einfaldlega að fá nýtt fjármagn inn til að þetta geti orðið að veruleika. (Forseti hringir.) Fram undan er hlutafjárútboð og ég held að hv. iðnaðarnefnd muni fjalla þannig um þetta mál að (Forseti hringir.) allt muni upplýsast á yfirvegaðan hátt en ekki með svona yfirlýsingum og upphrópunum (Forseti hringir.) eins og hafa átt sér stað í dag og í fjölmiðlum í gær.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn og hæstv. ráðherra um að virða tímamörk.)