138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

vinna við aðildarumsókn að ESB.

[10:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það mun eflaust gleðja kjósendur hæstv. ráðherra að heyra að hann vinni ötullega að því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið og þó að hann hafi greitt atkvæði gegn því ætli hann að vera duglegur við þetta.

Hæstv. ráðherra svaraði þó ekki spurningunni um Icesave og tengsl þess við Evrópusambandsumsóknina. Umsókn Íslands er svo einföld að hún er bara fjórar línur, engir fyrirvarar um þjóðaratkvæðagreiðslu, þingsályktun Alþingis, stjórnarskrána eða nokkurn skapaðan hlut. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra aftur: Sér hann tengsl milli umsóknar að Evrópusambandinu og Icesave-málsins? Hefur það áhrif á afstöðu hans í Icesave-málinu að Bretar og Hollendingar þurfi að samþykkja þetta utanlandsstarf hans um umsókn að Evrópusambandinu og gæti hugsanlega bjargað okkur seinna meir ef allt færi í kaldakol eins og suma dreymir um?