138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[11:23]
Horfa

 efh.- og skattn.Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég notaði orðið samstarfsverkefni átti ég við það verkefni sem er fram undan við að kanna hvort þessi lög þjóni tilgangi sínum. Þarf að breyta, þarf að laga, aðlaga, rýmka heimildir, þurfum við að beita viðmiðunarmörkum o.s.frv.? Það leit ég á sem samstarfsverkefni þeirra sem koma að, sem lögin lúta að, og löggjafans og í gegnum framkvæmdarvaldið að sjálfsögðu. Það getur verið að það orð eigi ekki við í þessu tilviki en það var það sem ég meinti að minnsta kosti í ræðu minni.

Ég lít ekki svo á að við séum að biðla til áhættufjármagnsins. (Gripið fram í: Jú.) Nei. Við erum fyrst og fremst að hvetja til þess að áhættufjármagnið — við erum að styrkja þá viðleitni að áhættufjármagnið geti leitað inn í einhver ákveðin verkefni, þ.e. að styrkja nýsköpun í landinu. Til þess erum við að búa til skattafslátt ákveði menn að styðja ákveðna gerð af atvinnustarfsemi sem við þurfum að efla nú um stundir.