138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi fyrst taka undir orð hv. þm. Þórs Saaris í sambandi við vinnubrögðin í þinginu þessa dagana. Við stöndum frammi fyrir því að á örfáum dögum er verið að afgreiða gríðarlega afdrifarík mál, annars vegar fjárlagafrumvarp og verulegar breytingar á því og hins vegar tekjuöflunarfrumvörp og skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar.

Ég vildi nefna það í þessu sambandi að þingið stendur frammi fyrir vanda og ég vil því bera blak af hæstv. forseta. Vandinn er sá að þau frumvörp ríkisstjórnarinnar sem varða þessi mál komu alveg dæmalaust seint inn í þingið. Skattafrumvörpin voru að koma hér inn síðustu dagana í nóvember og veigamikil frumvörp, sem snerta útgjöld ríkissjóðs, eins og frumvörp hæstv. félagsmálaráðherra gera, voru að koma í kringum mánaðamótin nóvember/desember. Þessi mál eru öll þess eðlis að þau þurfa gríðarlega yfirlegu, verið er að tala um róttækari skattkerfisbreytingar en gerðar hafa verið í 20 ár fyrir utan þau áhrif sem það hefur síðan á hagkerfið að hækka skatta jafnmikið við þessar aðstæður eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson vék að.

Ég vildi nefna það í þessu sambandi að ríkisstjórnin ber fulla ábyrgð á þessu vinnulagi. Það er heldur ekki svo, bara til að undirstrika það, að viðfangsefnið í ríkisfjármálum hafi blasað við ríkisstjórninni fyrst núna í haust. Það hefur blasað við alveg frá því að ríkisstjórnin eða hæstv. ráðherrar tóku við (Forseti hringir.) 1. febrúar og raunar lengur. Það hefur verið vitað allan þennan tíma að vandinn yrði mikill í ríkisfjármálunum. Það ber vott um frekar seinvirk vinnubrögð að koma með lausnirnar í byrjun desember.