138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[11:44]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil halda til haga sömu athugasemdum og ég fór með áðan varðandi samskipti ríkisvaldsins við þá aðila sem að málinu koma. Ég vil lesa úr umsögn Alþýðusambands Íslands, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Atvinnuleysistryggingar eru einn af hornsteinum réttindakerfis launafólks. Atvinnuleysistryggingum var upphaflega komið á fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar …“

Af þeirri braut var vikið nú við undirbúning breytinga á þessum lögum þegar farið er yfir samskipti ríkisvaldsins við Alþýðusambandið.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram, virðulegi forseti, að nýlegt samkomulag sem var gert 1. október 2009, svokallaður vegvísir, sem gert var milli ríkisvaldsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, að í því voru öll ákvæði brotin núna í meðferð málsins. Blekið er vart þornað á þeim samningum sem ríkisvaldið er að gera við hagsmunasamtök í landinu (Forseti hringir.) þegar það samkomulag er brotið. Við segjum nei.