138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[20:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er fjölmargt í þessu frumvarpi sem hægt væri að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar út í og fá nánari útskýringar á, en ég ætla að reyna að halda mig við 25. greinina, þar sem m.a. er fjallað um svokallaðan auðlegðarskatt.

Nú skil ég það sem svo að þarna sé enn og aftur verið að reyna að finna nýtt orð sem komi til með að hljóma vel í eyrum einhvers hluta landsmanna, í staðinn fyrir að tala hreint út um hlutina eins og þeir eru. Ég skil þetta sem svo að þarna sé verið að endurvekja hinn gamla og aflagða eignarskatt, sem við sjálfstæðismenn ásamt samstarfsflokki okkar í ríkisstjórn aflögðum á sínum tíma. Þessi skattur er ósanngjarn vegna þess að hann leggst aðallega á fólk eins og t.d. ekkjur. Þegar þessi skattur var við lýði þá vann ég hjá tveimur sýslumannsembættum hér á landi og það var alveg þekkt að konur, oft og tíðum, komu til að reyna að fá úrlausn þess hvernig í ósköpunum þær ættu að ráða við að greiða þennan skatt.

Ég sé ekki betur en að þarna sé draugurinn genginn aftur. Þegar menn eldast, missa maka sinn og vilja búa áfram í húsnæði sínu — en stefna flest allra flokka hér á landi er að menn búi áfram í húsnæði sínu og reyni að vera heima eins lengi og hægt er. Hvernig á eldra fólk að geta staðið undir skattheimtu af þessu tagi þegar tekjur falla niður og það tekur bara lífeyri sinn? Er það virkilega rétt að mati hv. þingmanns að endurvekja þennan gamla draug?