138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann talar um hraða og öll samtökin sem komi fyrir nefndina og að umsagnaraðilar hafi kvartað undan hraðanum. En mér finnst hv. þingmaður gleyma stórum hópi fólks, kjósendum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, (BJJ: Þeim fer nú fækkandi!) sem var sagt að hér yrði umræðupólitík, grasrótarstarf, ungliðahreyfing, samráð og annað slíkt og síðan er dembt í gegnum þingið einhverjum vissulega vinstri frumvörpum og vinstri sinnuðum skattahugmyndum en þær eru gjörsamlega óræddar. (Gripið fram í.) Mér finnst hv. þingmaður ekki hafa nógu mikla samúð með því fólki sem kaus þessa þingmenn á þing og þarf svo að upplifa að þetta sé keyrt í gegn, ákveðið í einhverjum reykfylltum herbergjum og ekki einu sinni haft samráð við samtök, hvað þá grasrótina eða umræðupólitíkina eða hvað þið viljið kalla það.