138. löggjafarþing — 55. fundur,  19. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[22:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Enn einu sinni segir hv. þingmaður eitthvað sem ég er ekki sáttur við. Hún segir „lán upp á framtíðina“. Við erum að tala um að taka eign ríkisins hjá séreignarsjóðunum til ríkisins. Ríkið á hluta af eignum séreignarsjóðanna vegna þess að það fé er óskattað. Við erum að tala um að taka þá eign inn í ríkissjóð í staðinn fyrir að geyma hana inni í séreignarsjóðum þangað til séreignin er greidd út. Þetta er jú sparnaður. Og annar sparnaður í bönkunum, það er búið að borga skatt af honum. Það er því ekki verið að taka lán út á framtíðina. Ég mótmæli þessu.

Og hvort ég eigi að fara að koma hér með hugmyndir, þær yrðu örugglega ekki á þeim nótum sem vinstri menn eru með vegna þess að ég trúi miklu frekar á það að lágar tekjur séu ekki persónueinkenni. Maður getur ekki sagt að maður sé bláeygður og lágtekjumaður. Það er hægt að breyta því að maður sé með lágar tekjur og það var einmitt það sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði, hann einfaldaði skattkerfið, lækkaði skattprósentur og skattstofninn bólgnaði út, tekjur Íslendinga hækkuðu sem hvergi annars staðar (Forseti hringir.) og tekjur ríkissjóðs af þessum sköttum, lækkuðu sköttum, stórjukust.