138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Miðað við það hve auðlegðarskatturinn á að skila litlum tekjum held ég að við hv. þm. Magnús Orri Schram yrðum fljótir að skera niður um 2,5 milljarða til þess að jafna þetta út, sem ég teldi mun betri leið. Ég held reyndar að hér sé fyrst og fremst um að ræða einhvers konar pólitíska friðþægingaraðgerð og sjónarspil af hálfu ríkisstjórnarinnar frekar en að gert sé ráð fyrir að þarna sé verið að ná inn miklum tekjum. (Gripið fram í: 5,7.) Ég held að það séu 2,5, fyrirgefðu, en það getur verið að mig misminni. Hins vegar held ég að menn eigi eftir að reka sig á það, og ég er nokkuð sannfærður um að menn eiga eftir að reka sig á það og við getum hist eftir ár og rætt það, að verið sé að ofreikna þennan skatt mjög mikið, eins og reyndar ég óttast að menn séu að ofreikna tekjuáhrif ýmissa annarra skattahækkana hér eins og fjármagnstekjuskatts og raunar tekjuskattsins líka. Ég er hræddur um að þegar verið er að reikna möguleg tekjuáhrif í þessu frumvarpi sem eru 20 — ég er ekki með töluna á takteinum — hvort það eru 23 eða 24 milljarðar sem frumvarpið á að skila í auknar tekjur til ríkissjóðs, séu menn að ofreikna þetta. Ég held að það sé vegna þess að þegar menn eru að búa til svona áætlanir eða reikna þetta út horfi menn til baka en velta ekki fyrir sér að skattbreytingar af þessu tagi hafa auðvitað áhrif á skattstofnana. Skattstofnarnir eru að minnka, við skulum átta okkur á því, þeir eru að minnka nú þegar, fyrirtækin munu borga miklu minna í tekjuskatt lögaðila en þau hafa verið að gera. Launin sem tekjuskattar einstaklinga eru lagðir á eru líka að lækka, það eru fleiri á atvinnuleysisbótum og færri í vinnu en var. (Forseti hringir.) Ég óttast það og ég bara skora á hv. þm. Magnús Orra Schram að hitta mig hérna eftir ár og við getum þá metið hvaða áhrif þessar skattbreytingar hafa.