138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér fengum við nasasjón af því hvernig roðinn í austri fer yfir okkur. Ég vil minna hv. þingmann á það að það er ég sem er íhaldið en ekki hann. Það sem mig hryllir hins vegar við er að núna á 20 ára afmæli frá falli múrsins erum við að fá hugmyndir þeirra manna sem voru í ríkisstjórn hér heima þráðbeint í hausinn. Hverjir skyldu hafa verið í ríkisstjórn þá? Hver skyldi hafa verið fjármálaráðherra Íslands þá? Hverjir skyldu hafa setið í þeirri ríkisstjórn aðrir en hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra? Er það gamli tíminn sem við viljum hverfa til? Ég segi nei. Það var þverpólitísk nokkuð góð sátt um það, m.a. frá ASÍ sem menn hafa alltaf viljað leita til hjá Samfylkingunni, að skattkerfið væri nokkuð einfalt, gegnsætt, nokkuð sanngjarnt. Við höfum bent á það að ef menn vildu fara þá leið og þá uppgjafarleið sem það er að hækka skatta, af hverju nýttu menn sér þá ekki það kerfi sem fyrir er í staðinn fyrir að standa í stórauknum kostnaði bara við kerfisbreytinguna eina og sér? Það sem við erum að tala um er að við viljum ekki fara inn í slíkt gamaldags kerfi sem við fengum hér fyrir rúmum 20 árum og er verið að setja fram núna.

Já, já, við getum alveg talað um hrunið eins og hv. þingmaður talaði um. Við erum að benda á aðrar leiðir. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því, við sjálfstæðismenn, að það þarf að halda uppi verðmætasköpun, atvinnusköpun. Það er eins og hv. þingmenn í Samfylkingunni eða Vinstri grænum átti sig ekki á því að hér þurfi að vera ákveðin verðmætasköpun til að halda atvinnulífinu uppi (Forseti hringir.) til þess m.a. að ríkissjóður fái þá eitthvað í kassann til að brúa bilið og halda uppi grunnþjónustu eins og velferðinni í landinu.