138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

kjararáð.

195. mál
[02:25]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og oft er ég sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Við deilum að mörgu leyti sömu lífsskoðunum þó svo að við séum hvor á sínum vængnum í pólitík. Ég er sammála hv. þingmanni um það að við eigum sjálf að taka ábyrgð á launum okkar. Við eigum að taka pólitíska ábyrgð á gjörðum okkar. Að því leytinu til erum við sammála. Það er afar óheppilegt hvernig aðrar stéttir hafa verið flæktar inn í kjör þingmanna eins og gerðist með því að flækja okkur inn í kjararáð. Að því leytinu erum við sammála.

Það gæti vel verið klókt, eins og hv. þingmaður leggur til, að við ákvörðum laun þingmanna á sama tíma og laun öryrkja. En ég er hræddur um að það hefði orðið uppþot í þjóðfélaginu ef raunlaun þingmanna hefðu hækkað um 70% á sex, sjö árum eins og var með öryrkja. Það gæti líka skapað viss pólitísk vandamál að velja þá leið. En ég skil hugsunina og get tekið undir hana. Eftir að við höfum leiðrétt laun öryrkja og laun þingmanna skulum við ákvarða þetta saman.