138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

93. mál
[09:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um hvort frístundabyggðin í þjóðgarðinum á Þingvöllum eigi ekki að lúta sömu reglum og aðrar sumarhúsabyggðir í landinu. Ég hef óskað eftir því að þetta mál verði tekið upp í allsherjarnefnd á milli 2. og 3. umr. því þrátt fyrir að sérstaða þjóðgarðsins sé auðvitað mikil og þar af leiðandi frístundabyggðarinnar innan hans og sjálfsagt sé að um hann gildi sérstakar reglur finnst mér fulllangt gengið að þær reglur sem þingið taldi að þyrftu að gilda um samskipti landeigenda, sveitarfélaga og frístundabyggða, skyldur og réttindi sem samþykkt voru fyrir einu ári, séu teknar algerlega úr samhengi við þetta mál.

Þar fyrir utan á að breyta reglum um kosningar til Þingvallanefndar. Ég teldi eðlilegt að í þessu tilliti að þessu sinni yrði bætt við aðild Bláskógabyggðar, að eins konar áheyrnarfulltrúa yrði bætt við nefndina (Forseti hringir.) úr því að það á að breyta þessu í leiðinni. Ég óska eftir að nefndin komi saman milli 2. og 3. umr. og ræði þetta mál. Ég mun sitja hjá við þessa umræðu.