138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég ætlaði að koma aðeins inn á það í ræðu minni að hér voru mjög öflug mótmæli verktaka sem af eðlilegum ástæðum lýsa yfir miklum áhyggjum af verkefnastöðunni fyrir félaga þeirra. Það kom fram að sá hópur var gríðarlega öflugur á þenslutímunum, þá var mjög mikil uppbygging, en þetta er sá hópur sem verður hvað harðast úti í þeim samdrætti sem varð síðan í kjölfarið. Það er því full ástæða til að huga að því hvernig hægt er að koma til móts við þann hóp.

Það er réttilega nefnt að hér hafa menn aðeins horft til þess hvernig farið verður með lokafjárlög frá árinu 2008. Eins og kunnugt er voru þau fryst, þær fjárveitingar sem þar voru inni, einfaldlega til að hagræðingin á árinu 2009 virkaði, þ.e. að menn gætu ekki verið að leika sér með að nota heimildir, en þar var ekki Vegagerðin langstærst. Hún var að vísu stærsti einstaki aðilinn en það voru fjölmargir aðrir aðilar og yfir 20–30 milljarðar í inneignum sem menn ákváðu að frysta meðan menn væru að fara í gegnum múrinn.

Nú kemur það til kasta lokafjárlaga fyrir árið 2008 að ákveða með hvaða hætti heimildir verða færðar yfir áramótin. Mér er kunnugt um að einhver hluti af vegagerðarheimildunum hafi nú þegar farið yfir. Að þessu er verið að vinna og við eigum eftir að fá þetta til fjárlaganefndar til umræðu. Þessi hluti hefur ekki komið til kasta fjárlaganefndar enn þá þó að við lokafjárlögin ætti hann að sjálfsögðu að vera kominn til umræðu með öllum þeim gögnum sem eiga að fylgja. Við höfum kallað eftir því en það hefur því miður ekki náðst.

Ég benti á það áðan úti þar sem ég tók við þessu mótmælaskjali að það skiptir líka mjög miklu máli að okkur takist að ná samkomulagi við lífeyrissjóðina um stærri framkvæmdir, koma hlutunum á einhvern hátt þannig fyrir að hér verði hægt að ráðast í stór verkefni. Það skiptir mjög miklu máli og að það gangi sem hraðast fyrir sig.