138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé ekki nokkur spurning, og mér fannst hv. þingmaður fara vel yfir það hversu illa þetta var unnið áður en þetta kom inn í þingið og það var rétt á síðustu metrunum sem einhverju var bjargað. Hv. þingmaður fór vel yfir að þetta er heilbrigðisþjónusta, hún nefndi það. Það er alveg augljóst að t.d. hv. þingmenn Samfylkingarinnar átta sig ekki á því og neita að horfast í augu við það.

Varðandi Ás í Hveragerði og aðrar slíkar stofnanir, það kom bara fram í þeirri litlu umræðu sem var í heilbrigðisnefnd að þeir sem reka hjúkrunarheimili líta svo á að verði þetta fært yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið, muni það slaka á heilbrigðisþjónustunni, þeir töluðu bara skýrt með það. Þarna er um geðrými að ræða, svo dæmi sé tekið, og það er ekkert félagslegt úrræði eins og við öll vitum. Og varðandi MS-félagið þá er svo sannarlega um heilbrigðisþjónustu að ræða þar fyrir alla aldurshópa.

Ég hef miklar áhyggjur af þessu, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) og ég vona að við náum að bjarga meiru en þessu sem eru bara 30% af hjúkrunarrýmunum eins og hér er gert ráð fyrir.