138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:40]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög mikilvægt í svona viðkvæmum málaflokki að hæstv. heilbrigðisnefnd og fjárlaganefnd fylgist með því hvernig þetta gengur fyrir sig á komandi ári, ekki bara hvernig þessi flutningur og skipulagsbreytingarnar ganga fyrir sig, heldur fylgi því líka eftir ef fjármagn losnar innan þessarar þjónustu með fækkun hjúkrunarrýma, sama hvort þau falla til hjá heilbrigðisráðuneytinu eða félagsmálaráðuneytinu, að það fjármagn fari a.m.k. til þess að styrkja stoðþjónustuna sem þarf að vera utan sjúkrahúsanna. Það er nauðsynlegt, ekki bara hvernig þetta gengur fyrir sig og hvort það sé sátt við akkúrat þessa skiptingu eða aðra skiptingu. Síðan verði lögð áhersla á að hafa þetta net sem verður að vera fjölbreyttara. Ég tel að líta verði til mismunandi aðstöðu sveitarfélaga, hvaða þjónustu þau geta boðið, (Forseti hringir.) og hún getur verið góð þó að hún sé ólík.