138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:17]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var nokkuð skondin ræða og skemmtileg á köflum. Mér fannst það sérstaklega athyglisvert að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mælir fjárlögin öll í mínútum og klukkustundum. Margra grasa kenndi í ræðu hans um starfsemi sem hann telur að við ættum að leggja af (SDG: Nei.) — landbúnaðarskólarnir, háskólinn, Þjóðleikhúsið, Þjóðminjasafnið, Ríkisútvarpið, halda upp á torfbæina, Náttúruminjasafnið, byggðasöfnin um allt land. Þetta var allt að finna í upptalningu hv. þingmanns. Að vísu var engin tillaga um að leggja Framsóknarflokkinn niður en athyglisverðust var þó tillaga formanns Framsóknarflokksins, hv. þingmanns, um að leggja niður forsetaembættið.

Í ljósi sögunnar er þetta athyglisverð tillaga og ég hlýt að spyrja hv. þingmann hvort þess sé þá ekki að vænta að hv. þingmenn Framsóknarflokksins muni áður en langt um líður leggja fram formlega tillögu, hugsanlega frumvarp, um að leggja niður þá ágætu starfsemi.