138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Skilanefnd Landsbankans er enn einn duttlungafulli aðilinn í þessu máli. Í starfi fjárlaganefndar kom skilanefndin oftar en einu sinni fyrir fjárlaganefnd. Mjög fljótlega var óskað eftir því að skilanefndin afhenti gögn um eigur Landsbankans. Því var hafnað undir yfirskini bankaleyndar, að það væri óheimilt. Í kjölfarið var þess óskað af hálfu nefndarmanna að formaður, Guðbjartur Hannesson, fengi einfaldlega gögnin afhent í ljósi þess að hér væri um Alþingi að ræða og hann hét því að skrifa bréf og sækjast eftir þeim gögnum. Hv. formaður fjárlaganefndar samdi aftur á móti áðurnefnt bréf en stílaði það á skilanefnd Landsbankans og óskaði eftir að hún aflétti trúnaði. Hún sagði að sjálfsögðu bara aftur: Nei. Þetta er dæmi um það hvernig vinnubrögðin hafa verið (Forseti hringir.) í þessu máli, hvernig þau hafa verst verið.