138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:19]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mörg og þung hafa orð fallið í þessari umræðu, margt ekki svaravert sem þar kemur fram, sérstaklega ekki náttúrlega brigsl um að stjórnarliðar séu að vinna í þágu erlendra ríkja. Slík digurmæli eru að sjálfsögðu ekki svaraverð.

Hv. þm. Þór Saari gerði að umtalsefni áhættugreiningu IFS Greiningar á Icesave-samningnum og skuldabyrði þjóðarinnar og vakti máls á því að samkvæmt því mati væri varfærið mat á verulegum erfiðleikum sem leitt gætu til greiðslufalls ríkissjóðs um 10%. Þetta þýðir á mannamáli að það eru 90% líkur á því að svo verði ekki. Ég vek athygli á þessu, frú forseti, vegna þess að þetta er í hnotskurn einkenni Icesave-umræðunnar frá upphafi þar sem fjandinn hefur verið málaður á vegginn. Eru nú erfiðleikar þjóðarinnar nægir þó að við horfum ekki ævinlega á glasið hálftómt (Forseti hringir.) þegar við getum horft á það hálffullt. (Gripið fram í.)