138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bendi hv. þingmanni á að lesa nefndarálitið í rólegheitum. Hv. þingmaður hefur áður orðið uppvís að því að reyna að túlka það sem úr munni mínum hefur komið ekki alltaf með réttum hætti. Ég hef aldrei borið stjórnendum það á brýn að ganga erinda erlendra ríkja. Hins vegar hefur sá bragur verið á vinnslu þessa máls að íslenska samninganefndin, sem ríkisstjórnin ber fulla ábyrgð á, hefur nálgast þetta mál eins og uppgefnir menn. Ég er ekki einn til frásagnar um það. Fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, annars stjórnarflokksins, hefur þessi orð uppi. Því væri nær fyrir hv. þingmann að snúa sér til samstarfsflokksins og spyrja hvort þetta sé almennur skilningur innan Samfylkingarinnar. Ég vænti þess að hann fengi önnur svör en þau sem hann fær frá mér. (Forseti hringir.)