138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:24]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra til upplýsingar var bindiskyldunni aflétt í útibúum Landsbankans, Kaupþings og reyndar Íslandsbanka líka, eða Glitnis eins og hann hét, vegna þess að reglur Evrópusambandsins sögðu til um það. (Gripið fram í.) Ég heyri að hæstv. ráðherra neitar því. Það var víst þannig.

Bankastarfsemi yfir landamæri er möguleg vegna þeirrar tilskipunar sem hér var innleidd. Það er mjög skýrt kveðið á um það í þessari tilskipun til hvaða ráða heimaríki getur gripið til þess að stöðva eða hefta starfsemi ef móðurfélag er á einhvern hátt fjárhagslega vanbúið til þess að reka útibú, (Forseti hringir.) en þessir bankar voru það ekki. Að koma hér og fabúlera um að við hefðum getað gert hitt og að við hefðum getað gert (Forseti hringir.) þetta, er einfaldlega ekki rétt hjá hæstv. ráðherra. Hann gæti spurt kollega sinn að þessu (Forseti hringir.) sem var bankamálaráðherra á þessum tíma. (Gripið fram í: Og Ingibjörgu Sólrúnu líka.) Já, og hana líka.