138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Afar margt í ræðu hv. þingmanns er athugunarvert og gagnrýnivert. Hann talaði um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Norðurlandalánin, hann minntist sem sagt á þá aðila sem hafa kúgað Ísland en hafa núna horfið frá því og vilja ekki hafa þann svarta pétur í hendi sinni. Telur hv. þingmaður að þetta hafi verið frjálsir samningar eða voru þetta nauðasamningar?

Í öðru lagi, hann segir: Þjóðin sem með sínu eigin regluverki — var þetta ekki regluverk Evrópusambandsins sem var farið eftir? Svo segir hann að þetta sé allt saman skýrt og ég vil spyrja hv. þingmann eins og aðrir: Hversu mikið, hvenær, hvernig og hversu lengi munum við borga af þessu láni fyrst allt er svona skýrt?

Svo vil ég spyrja hv. þingmann, fyrst hann er svona sannfærður um að Íslendingar eigi að greiða, hvort hann mundi þá ekki greiða atkvæði gegn 1. mgr. í 2. gr. í frumvarpinu sem segir, með leyfi frú forseta:

„Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda …“

Mun hv. þingmaður greiða atkvæði gegn þessu?