138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða Icesave eina ferðina enn og það eru þung spor sem þingmenn taka í dag og á morgun. Nú hillir undir að ríkisstjórnin nái að koma þessu hörmulega máli í gegnum þingið en ég er hér með upplýsingar frá því í gær, sem fáir tóku eftir, þegar hv. formaður fjárlaganefndar fór hér í andsvar við mig. Það sýnir í stuttu máli fram á að málið var ónýtt í sumar því að þær upplýsingar komu fram þegar ég spurði hann hvað hefði breyst frá því að hann greiddi atkvæði þann 28. ágúst sl. þegar Icesave-lögin urðu að lögum.

Þá sagði hann, með leyfi forseta:

„Það er Alþingi sem setur þessa fyrirvara og það er Alþingi sem mun fylgja þeim eftir. Við treystum á að þeir haldi og höfum fullvissu fyrir því.“

Þá spurði ég hv. þingmann spurningarinnar: Hvað hefur breyst síðan þessi orð féllu?

Hv. þm. Guðbjarti Hannessyni var orðið frekar heitt í hamsi þegar þarna var komið í umræðum á Alþingi í gær og sagði þessi orð, með leyfi forseta:

„Varðandi það sem samþykkt var í haust var það eitt sem við klikkuðum illilega á. Það var það þegar við settum það klára skilyrði að Bretar og Hollendingar yrðu formlega að samþykkja fyrirvarana athugasemdalaust.“

Þarna er þingmaðurinn líklega að vísa í það ákvæði í lögunum sem varð að lögum sem segir með skilyrðin, 2. mgr. 1. gr., með leyfi forseta:

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem settir eru á ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau stjórnvöld fallist á þá.“

Þarna upplýsir hv. formaður fjárlaganefndar í gær að ríkisstjórnin hafi hreinlega klikkað illilega. En það sem er alvarlegast við svar þingmannsins frá í gær kemur nú, með leyfi frú forseta, ég vísa hér í svar síðan í gær:

„Við vissum það nóttina sem þetta gerðist, ég fékk tölvupósta frá málsmetandi mönnum sem sögðu: Nú fóruð þið yfir mörkin.“ Við ræddum það á þeim tíma, við tókum áhættuna, ég treysti á að við næðum þessu og talaði að sjálfsögðu fyrir því. Hvað hefði ég annað átt að gera? Átti ég að fara að segja að þeir mundu ekki halda? Ég talaði að sjálfsögðu fyrir því“, hvað átti ég annað að gera?

Hæstv. forseti. Þarna er það orðið skjalfest eftir svar þetta sem ég fékk frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni í gær að ríkisstjórnin vissi það aðfaranótt 28. ágúst, þegar þingmenn voru hér að reyna að koma þessu máli í gegnum þingið, þegar ríkisstjórnin var búin að beita hér miklum þumalskrúfum, að Bretar og Hollendingar höfðu þá þegar hafnað fyrirvörunum.

Þetta er grafalvarlegt mál. Þetta kemur fram í svari formanns fjárlaganefndar í gær og það er athugunarvert sem hann segir: Við vissum þetta. Hvaða „við“ voru það? Vissu þingmenn Vinstri grænna af því að Bretar og Hollendingar hefðu hafnað fyrirvörunum áður en lögin voru sett hér? Þetta er sambærilegt við það þegar Indriði H. Þorláksson aðstoðarmaður hæstv. fjármálaráðherra, bað fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að leyna upplýsingum um stöðu Icesave-samninganna fram yfir kosningar. Hefði það verið ljóst hvernig þessir hörmungarsamningar stóðu fyrir kosningar hefðu kosningaúrslitin kannski orðið önnur. Hefðu þingmenn vitað að Hollendingar og Bretar væru búnir að hafna fyrirvörunum fyrir 28. ágúst í sumar hefðum við kannski aðra ríkisstjórn. Þá hefðum við kannski líka öðruvísi Icesave-samninga og þá hefðu lögin jafnvel staðið, þau lög sem nú eru í gildi, og Bretum og Hollendingum hefði ekki verið fært það löggjafarvald sem þeir hafa nú á Alþingi Íslendinga og er uppspretta þeirra laga sem við höfum nú í höndunum.

Þetta er alvarlegt mál. Það fór fram hjá mörgum sem voru hér í gær. En þegar maður skoðar síðan ræðu hæstv. forsætisráðherra þann 28. ágúst skýrir það ýmislegt, það var vissa fyrir því að Bretar og Hollendingar hefðu þá þegar hafnað fyrirvörunum.

Með leyfi forseta langar mig til að grípa niður í ræðu hennar:

„Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu virða niðurstöðu Alþingis og gera allt sem í hennar valdi stendur til að ljúka málinu farsællega. Íslensk stjórnvöld munu freista þess að sannfæra Breta og Hollendinga um að skynsamlegt sé að þeir fallist á forsendur Alþingis fyrir ríkisábyrgðinni eins og þeir koma fram í lögunum. Þetta verður verkefni ríkisstjórnarinnar í kjölfar samþykktar laganna …“

Þegar maður hefur þessar upplýsingar í höndunum sér maður að það er mikill ótti sem felst í þessum orðum, ótti við slaginn við Breta og Hollendinga, ótti við að geta ekki staðið í fæturna, ótti við að hafa það í höndunum að Alþingi sé búið að samþykkja lög sem ríkisstjórnin vissi að Bretar og Hollendingar mundu ekki sætta sig við. Við skulum bara fara yfir það hvernig að málum var staðið.

Það var samstaða allra flokka hér um að reyna að gera sem besta fyrirvara, að reyna að bjarga því sem bjargað varð í þessu frumvarpi sem þá lá fyrir þinginu. Ég minni enn á að það var ekki Framsóknarflokkurinn sem greiddi því atkvæði sitt enda höfðum við alltaf miklar efasemdir um þessa fyrirvara og höfum verið á móti Icesave-málinu alla tíð. Við stöndum með komandi kynslóðum og við stöndum með íslensku þjóðinni, en þegar maður hefur frumvarpið í höndunum má lesa úr því mikinn ótta, enda hvað gerðist hér eftir að lögin voru samþykkt? Ríkisstjórnin fór ekki út og kynnti fyrirvarana fyrir Bretum og Hollendingum eins og þó var lagt upp með í umræðum á Alþingi. Það fór einhver samninganefnd af stað sem átti að reyna að þvinga Breta og Hollendinga til þess að fallast á þessa fyrirvara sem þeir höfðu þá þegar hafnað.

Það var alveg hreint með ólíkindum í sumar þegar ég lagði það til að Bretum og Hollendingum yrði kynnt sú vinna sem átti sér stað hér í sumar, þá var alltaf viðkvæðið hjá ríkisstjórninni: Nei, nei, nei. Íslenska Alþingi hefur hér löggjafarvald, Bretum og Hollendingum kemur þetta ekki við. Það var svarið, en nú hefur þetta allt saman breyst því að nú er búið að sanna það sem ég sagði: Bretar og Hollendingar hafa löggjafarvald hér á Alþingi Íslendinga. Þetta er ömurlegt mál og það er sama hvaða rök við komum með fyrir því að þetta séu ómögulegir samningar, það er alltaf tekinn upp hanskinn fyrir samningsaðila okkar en ekki staðið með þeim rökum sem gætu þó bjargað okkur frá því að skuldsetja hér þjóðina upp á 800–1.000 milljarða, allt eftir því hvað fæst upp í þrotabú Landsbankans því að enginn hefur getað sýnt fram á raunverulegar eigur Landsbankans. Eins og kom fram í umræðum hér á Alþingi í gær bað fjárlaganefnd tvisvar sinnum um að fá eignastöðu Landsbankans hjá skilanefnd Landsbankans en skilanefndin hafnaði því í bæði skiptin. Þá er ég undrandi á því að ekki einu sinni fjárlaganefnd, hvað þá heldur Alþingi, sem hefur hér ríkisábyrgðarvald, skuli hafa séð hvað stendur á bak við þessar eigur því að skilanefnd Landsbankans hefur ekki ríkisábyrgðarvald eða fjárveitingarvald hér á Alþingi. Þetta er einn þátturinn í þessu máli, hvernig er farið með það. Hér er verið að leyna Alþingi upplýsingum og það er beinlínis verið að segja ósatt, hagræða sannleikanum.

Virðulegi forseti. Á hátíðastundum og í stefnuskrá Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru höfð falleg orð um að við eigum að skila framtíðarkynslóðum landinu okkar og umhverfi í betra ástandi en við tókum við því sjálf. Nú höfða ég til samvisku vinstri grænna. Með samþykkt þessa frumvarps er verið að rústa framtíðarmöguleika komandi kynslóða hér á landi. Ríkisábyrgð gengur út á allsherjarveð í náttúruauðlindum þjóðarinnar, landinu sjálfu og þeim friðhelgisréttindum sem þarf til að ríkið geti starfað. Í sex mánuði hef ég staðið í þessum ræðustól og bent á þessi atriði án þess að ríkisstjórnarflokkarnir hafi svo mikið sem athugað hvað ég er að tala um.

Í 18. gr. í upphaflegu Icesave-samningunum var alfarið fallið frá friðhelgisréttindum þjóðarinnar og er það einsdæmi í samningum landa sem flokkast ekki í hóp vanþróaðra ríkja. Þessu friðhelgisákvæði kastaði ríkisstjórnin og Icesave-samninganefndin undir forustu Svavars Gestssonar fyrir borð og það er árið 2009. Það er ekki stríð í heiminum. Fram að þessari undirritun töldum við Íslendingar okkur vera þjóð á meðal þjóða en ekki vanþróað ríki.

Ég hef verið óþreytandi við að benda á þessar staðreyndir og í einni ræðu minni nú fyrir jól fór ég yfir þetta lið fyrir lið allt frá upphafi Icesave-samninganna, laganna um ríkisábyrgð þar sem settir voru fyrirvarar um þessi atriði þann 28. ágúst, og til frumvarps þess sem nú liggur fyrir þinginu. Á bls. 23 í frumvarpinu í tölulið 3.3.3 í viðauka við breska samninginn sem fjallar um að fallið sé frá friðhelgisréttindum og tölulið 3.3.4 sem fjallar um að svipta Ísland yfirráðum yfir náttúruauðlindum sínum. Sambærilegt ákvæði er að finna á bls. 31 í viðauka við hollenska samninginn. Friðhelgisréttindi okkar og yfirráð yfir náttúruauðlindum Íslendinga eru ekki tryggð og á bls. 22 kemur fram að íslenska ríkið ábyrgist án skilyrða og fyrirvara að tryggja að skuldbindingar tryggingarsjóðs íslenska ríkisins séu fullnustuhæfar. Þetta hef ég farið yfir í mörgum ræðum og ekki fengið svör við því hvað er átt við þarna, í hverju á að taka fullnustu. Virðulegi forseti, þarna er vendipunkturinn í öllu þessu máli, að íslenska ríkið tryggi að skuldbindingar Icesave séu fullnustuhæfar.

Hvað gerist ef þjóðríki getur ekki greitt af skuldbindingum sínum? Jú, þá verður greiðslufall og gengið er að veðum, nákvæmlega eins og gerist í gjaldþroti einstaklinga. Náttúruauðlindir okkar allra liggja undir í þessu máli og öll verðmæti í eigu ríkisins.

Þessum málflutningi hef ég haldið til streitu og er þessi skoðun staðfest í áliti bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reya. Þar kemur fram að sá þáttur sem kom lögfræðingum lögmannsstofunnar mest á óvart væri framsal friðhelgisréttinda af hálfu íslenska ríkisins. Munum að hæstv. fjármálaráðherra sagði að Icesave-samningarnir væru glæsilegir. Ég fullyrði að sá ráðherra sem hefði afsalað ríki sínu fullveldisréttindum sínum hefði tafarlaust sagt af sér en það á ekki við um hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon. Hann lítur á þetta sem prívatmál og hefur lagt höfuð sitt að veði. Ráðherrann og ríkisstjórnin átta sig ekki á að þetta Icesave-mál er svo langtum stærra en sú ríkisstjórn sem nú situr og þeir ráðherrastólar sem þeir sitja á.

Síðan kemur fram í áliti lögmannsstofunnar að slíkt friðhelgisákvæði hefði verið óþarft þar sem friðhelgisafsal mundi ekki ná til tryggingarsjóðsins. En að breska ríkið skyldi setja friðhelgisafsal inn í samninginn undirstrikar hvaða markmiði breska ríkisstjórnin stefnir að og það hef ég farið yfir í ræðum mínum.

Síðan kemur fram í lögfræðiálitinu að ekki hafi komið á óvart að 2. gr. þessa frumvarps sem samþykkt var á Alþingi þann 28. ágúst sl. fékk tilverurétt en farið var yfir það í 2. og 3. tölulið að hvergi yrði haggað við óskoruðum yfirráðum Íslands yfir náttúruauðlindunum og svo ákvæðið um friðhelgisákvæðið. Í lögfræðiálitinu segir síðan að á friðhelgisréttindum sé tekið í gr. 3.3.3. í viðaukasamningunum, eins og ég fór yfir áðan, og að sú grein takmarki að einhverju leyti friðhelgisafsalið en felldi það ekki niður. Þetta er alveg samhljóma við það sem ég hef verið að tala um hér í þinginu, þarna höfum við fengið það staðfest. Þetta eru sérfræðingar í breskum lögum og staðan er því sú að það er ljóst að þetta er víðtækt afsal. Það eru breskir dómstólar sem munu að skera úr um það, komi málið til kasta dómstóla, sem það gerir örugglega.

Í gildi eru bresk lög um ríkisfriðhelgi frá 1978 og þá munu breskir dómstólar dæma ágreining á milli ríkjanna eftir þeim. Þegar ríki hefur afsalað sér friðhelgi sinni með skriflegum hætti í samningi, eins og íslenska ríkið hefur gert í Icesave-samningnum, standast þeir samningar að fullu breska löggjöf því að í kommúnu- og lagaumhverfi er ágreiningur samninga dæmdur eftir orðanna hljóðan. Lögmenn Mishcon de Reya starfa t.d. núna fyrir svokallaðar hrægammaþjóðir og eru þeir að freista þess að endurheimta ríkisskuldbindingar Argentínu, Kongó og Sambíu á grundvelli bresku laganna um ríkisfriðhelgi. Frú forseti, þetta er raunveruleikinn sem við stöndum frammi fyrir, um þetta á að greiða atkvæði á morgun. Ég segi nei, eins og alþjóð veit.

Mér finnst rétt að ljúka þessari ræðu minni hér á auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í morgun:

„Deyr fé, deyja frændur. Forustumenn ríkisstjórna koma og fara. Óbreyttir þingmenn geta komið í veg fyrir að mörg hundruð milljarða króna skuldir verði lagðar á íslensku þjóðina án dóms og laga. Þess verður minnst um alla framtíð hverjir brugðust íslenskri þjóð.“