138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér hefur verið ljóst að hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni hefur ekkert legið á í þessu máli frá upphafi. Það þýðir ekki það eigi að kosta okkur hin að vinna meira í viðbót við þá sjö mánuði sem við erum búin að vinna við, að fara í gegnum öll gögn upp á nýtt.

Það er nákvæmlega aðalatriðið í þessu máli að stofan sem valin var af stjórnarandstöðunni, Mishcon de Reya … (Gripið fram í.) Hún var valin af okkur saman eða eftir tillögu sem kom fram í minnisblaði. Tillagan var nafngreind og kom frá stjórnarandstöðunni, við skulum ekki fela það, ég held að menn hljóti að kannast við það. (Gripið fram í.) Já, hún var upphaflega valin af gömlu ríkisstjórninni.

Það sem kemur fram er að óskað er eftir öllum gögnunum. Þeir skila 86 blaðsíðum og þeir voru ekki beðnir að undanskilja neitt. Þeir tóku sér góðan tíma í það og við eigum eftir að borga fyrir það einhverja tugi milljóna. (Gripið fram í.) Það er aukaatriði í málinu.

Getur það verið að stofan sem skilar þessum gögnum á 86 blaðsíðum eigi eitthvað ósagt?