138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna, sem er ein sú besta ræða sem haldin hefur verið í þingsölum lengi. Íslensk þjóð þarf einmitt á því að halda að vita að í þingsölum situr fólk sem horfir á þá nýju stöðu sem komin er upp með yfirvegun, andar með nefinu og skoðar þá kosti sem í boði eru, vegna þess að við höfum ýmis tækifæri í þessari stöðu. Ég er mjög ánægð að heyra það að einn af yngri forustumönnum þessarar ríkisstjórnar sjái þetta og ég vonast til þess að við hér inni tökum öll mark á þessum orðum og förum að vinna samkvæmt þeim, vegna þess að íslenska þjóðin þarf á því að halda að við vinnum sem Íslendingar í þessu máli og förum upp úr því fari í hvaða flokki við erum.

Ég sé að hæstv. heilbrigðisráðherra fussar yfir þessu en það er akkúrat sjónarmiðið, akkúrat viðhorfið sem við verðum að láta af. Við verðum að hætta að láta svona, sama í hvaða flokki við erum. Við erum saman í þessu og ný tækifæri eru í stöðunni. Við höfum ekki efni á því að standa hér og gapa hvert framan í annað. (Forseti hringir.) Ég hafna þeim vinnubrögðum og vonast til þess að við berum öll þá virðingu fyrir þingi og þjóð að horfa á nýju tækifærin og vinna saman að þessum málum. (Gripið fram í: Heyr. Heyr.)