138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég mun svara hv. þingmanni á grundvelli gildandi laga þó að auðvitað sé rétt sem hann vísaði í, að frumvarp sem komið er fyrir Alþingi og væntanlega sést hér eftir nokkrar vikur, jafnvel daga, um skipulags- og byggingarlög verður til meðferðar á yfirstandandi þingi. Kjarni þess máls sem vísað er í, þ.e. grundvöllur synjunar hæstv. umhverfisráðherra á breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps og á þeim hluta aðalskipulags Flóahrepps sem viðvíkur fyrirhugaðri Urriðafossvirkjun, er úrskurður hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra frá 31. ágúst sl. Menn eru svolítið að reyna að hengja bakara fyrir smið ef því er að skipta því að þar er kveðið skýrt á um að samkvæmt landslögum eigi að greiða skipulag sveitarfélaga úr sveitarsjóði eða með úthlutun úr svokölluðum skipulagssjóði. Það er ekki gert ráð fyrir neinu öðru. Það eru lögin í landinu, hv. þingmenn, og þetta snýst um það hvort tiltekin fyrirtæki, orkufyrirtæki eða önnur, kannski verktakafyrirtæki, geti eða geti ekki keypt sér skipulagsgerð. Ég ráðlegg hv. þingmönnum að lesa bréfin sem hæstv. umhverfisráðherra sendir sveitarstjórnarmönnum þar sem ítarlega er farið yfir það hvernig þetta hefur farið fram og hvers vegna. Það er alveg ljóst að með synjun sinni fer hæstv. umhverfisráðherra algjörlega eftir lagabókstafnum og úrskurði sveitarstjórnarráðherrans.