138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldssögunni um leyndarferðir forsætisráðherra sem við getum væntanlega fengið fréttir af í vikunni.

Mig langaði að taka undir þá gagnrýni sem sett hefur verið fram hérna á synjun hæstv. umhverfisráðherra á skipulagsbreytingum sem snúa að virkjunum í neðri Þjórsá. Mér fannst athyglisvert þegar hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir svaraði þessari gagnrýni þannig að þetta væri alls ekki umhverfisráðherranum að kenna, það væri hæstv. samgönguráðherra sem hefði í rauninni kveðið upp úr með þennan úrskurð 31. ágúst sl.

Hæstv. umhverfisráðherra sagði hins vegar í Fréttablaðinu í morgun að þessi úrskurður hefði verið algjörlega borðleggjandi, vegna þess að lögin væru svona skýr hefði það verið algjörlega borðleggjandi að þetta gæti ekki farið öðruvísi. Þá vil ég spyrja talsmenn ríkisstjórnarinnar í þessari umræðu: Ef þetta var svona borðleggjandi og ef þetta lá fyrir 31. ágúst sl., af hverju í ósköpunum tók hæstv. umhverfisráðherra 14 mánuði í að úrskurða um þetta? Og þó að við miðum bara við nýjustu dagsetninguna í málinu, 31. ágúst, er langt um liðið, núna er 2. febrúar. Ef þetta var svona borðleggjandi, af hverju var ekki búið að koma með úrskurð til að eyða óvissu hjá þessum sveitarfélögum sem eru að gera það sem ríkisstjórnin á að vera að gera, reyna að búa til atvinnutækifæri og skapa verðmæti í þessu landi með því skipulagi sem þau leggja til?

Við skulum bara tala hreint út um þetta. Þetta snýst ekkert um hvað er borðleggjandi í skipulagslögum. Þetta snýst um það að Vinstri grænir eru á móti virkjunum í neðri Þjórsá og sumir þingmenn Samfylkingarinnar hafa lýst sig andvíga þeim jafnvel þó að þeir séu ekki andvígir uppbyggingu stóriðju. (Forseti hringir.) Segjum þetta þá bara hreint út, Vinstri grænir vilja ekki virkjanir í neðri Þjórsá. Það er það eina sem er borðleggjandi (Forseti hringir.) í þess máli.