138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er ágætt að taka nokkuð hressilega umræðu um atvinnu- og orkunýtingarmálin. Við skulum samt hafa það alveg á hreinu að stærsta ógnunin við það að þessi verkefni gangi fram er ekki fólgin í stjórnvaldsaðgerðum hérna heima. Við hófum þessa umræðu á að minna á að ákvörðun umhverfisráðherra frá því fyrir helgi um að senda Suðvesturlínu ekki í sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum hefur það í för með sér að þau verkefni sem ég las upp áðan geta öll farið af stað takist að fjármagna framkvæmd þeirra. Þar er ógnunin ekki fólgin í neinum skipulags- eða stjórnsýslumálum hérna heima, heldur fyrst og fremst skuldatryggingarálagi upp á 700 punkta á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum og ýmsum öðrum flöskuhálsum við að afla fjármagns til ýmissa verkefna heima. Sem betur fer standa mörg góð ráð til boða, t.d. verkefnafjármögnun.

Rétt til að tæpa aftur á afleiðingum þeirra verkefna sem ákvörðunin um Suðvesturlínu og tengdar framkvæmdir hefur í för með sér ein og sér: Landsvirkjun undirbýr byggingu Búðarhálsvirkjunar. Á undirbúningstímanum er áætlað að bygging hennar skapi 800 ársverk. Við endurnýjun á framleiðslubúnaði í Straumsvík eru 250 ársverk, 600 á tímanum sem tekur að byggja. Talið er að endurbygging Suðvesturlínu skapi um 255 ársverk á þriggja ára framkvæmdatíma og fari álver Norðuráls í Helguvík af stað er um að ræða yfir 2.000 ársverk á framkvæmdatíma. Gangi þær framkvæmdir eftir sem áætlaðar eru og tengjast beint Suðvesturlínu og framkvæmdum suður með sjó og í Straumsvíkinni erum við að tala um 4.000 ársverk á uppbyggingartíma. Þetta skiptir öllu máli (Forseti hringir.) og þetta eru staðreyndirnar sem við skulum einblína á og halda aðskildum frá afleiðingum og ekki afleiðingum af ákvörðun umhverfisráðherra (Forseti hringir.) nærri Þjórsá. (Gripið fram í.)