138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Það er ekki í fyrsta sinn sem það kemur í þingsal, ætli ekki hafi verið lagðar til rúmlega 50 breytingar eða þar um bil. Það er því ekki eins og ríkt hafi mikil sátt um það eða að menn hafi ekki verið að reyna að púsla í kringum þetta enda er það kannski eðlilegt þegar um takmarkaða auðlind er að ræða að ekki verði allir sáttir við það hvernig henni er úthlutað til ýmissa aðila.

Hér hafa margir hlutir verið ræddir ítarlega en ég vildi kannski koma að örfáum hlutum, fyrir utan þau efnisatriði sem eru í frumvarpinu. Mér finnst frumvarpið vera því sama marki brennt og allt of mörg önnur mál sem koma inn í þingið. Hér er með litlum meiri hluta þings verið að troða málum í gegn, gegn vilja allra annarra í þinginu og jafnvel gegn vilja stórs hluta samfélagsins. Stjórn fiskveiða er mjög umdeilt mál í samfélaginu og æskilegast hefði verið að reyna að leita leiða — í stað þess sem því miður gerist í svo mörgum málum, og við horfðum upp á í dag með náttúruverndaráætlun sem er keyrð í gegn í ósætti — til að fá 70–80% af íbúum lands og hagsmunaaðilum á bak við breytingar en þær eru frekar keyrðar í gegn með minnsta mögulega meiri hluta. Þetta er ekki í anda hins norræna velferðarsamfélags og samfélags norrænna lýðræðisþjóða en sú ágæta ríkisstjórn sem við búum við stærir sig oft af því að hún sé að reyna að leika þann leik eftir. Þegar um slík stórmál er að ræða þar, og það er m.a. vegna þeirrar hefðar sem þar er fyrir minnihlutastjórnum, hafa menn leitað sátta í samfélögunum áður en þeir keyra slíkar breytingar í gegn. Það er miklu vænlegra til árangurs og miklu betra fyrir samfélag að taka stórar breytingar í málum sem varða hagsmuni margra slíkum tökum í stað þeirra vinnubragða sem við horfum upp á hér.

Það má velta því fyrir sér hvort frumvarpið hefði ekki mátt bíða nánast í heild sinni. Það má kannski nefna 1. gr., fyrstu breytinguna, sem hefði í sjálfu sér verið í lagi að taka til og jafnvel einhverjar aðrar þeirra, en í sjálfu sér er kannski engin sérstök ástæða til að keyra þetta í gegn, einfaldlega vegna þess að nú er verið að reyna, og það er jákvætt, að skapa vettvang með samráðsnefnd allra aðila. Það var hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem skipaði þá nefnd og í henni eiga sæti fulltrúar allra þingflokka og hagsmunaaðila. Meginmarkmiðið með skipan þessa vinnuhóps var að freista þess að ná fram tillögum til að skapa meiri sátt meðal þjóðarinnar. Ef það tækist, ef 60–70% þjóðarinnar stæðu þar að baki, mættu menn koma í kjölfarið og leggja fram lagabreytingar til að uppfylla niðurstöðu slíkrar nefndar. Í stað þess er stokkið til að breyta ýmsum hlutum, ýjað að stærri breytingum seinna, óvissa er sköpuð í stað þess að ná sáttum, hvíla málið á meðan starfshópurinn fær frið til að vinna sín verk án íhlutunar ráðherra eða stjórnarmeirihluta. Við í minni hlutanum, ég á aðild að nefndaráliti minni hlutans, hefðum talið að það væri æskilegri leið.

Ef við víkjum að einstökum efnisatriðum frumvarpsins þá hjó ég eftir því í framsöguræðu hv. starfandi formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, að fyrsta breytingin, um frístundaveiðarnar, hefði verið ágreiningslaus. Ég er sammála því að nauðsynlegt var að skapa meiri festu í kringum þær veiðar og það var m.a. gert með því að taka 200 lestir af óslægðum þorski til nota á næstu tveimur fiskveiðiárum. En ég er ekki sammála formanninum í því að aðrir liðir hafi verið ágreiningslausir fyrir utan skötuselinn. Mér fannst nánast að ákveðinn ágreiningur væri um alla liðina, það var auðvitað mismunandi. Stundum var ágreiningurinn innbyrðis meðal hagsmunaaðila sjávarútvegsins en stundum voru hagsmunaaðilar sjávarútvegsins nokkuð sammála en voru fullir efasemda um þær breytingar sem hér eru lagðar fram.

Ef við rennum hratt yfir þetta var í öðru lagi fjallað um heimild til að flytja aflamark á milli ára, sem sagt úr 33% niður í 15%, eða gefa ráðherra heimild til þess. Um þetta var verulegur ágreiningur og margir hafa bent á að þetta sé nauðsynlegur sveigjanleiki, m.a. til að geta geymt verðmæti í sjó af markaðslegum ástæðum, og að þetta hafi neikvæð áhrif á það. Hin hliðin er auðvitað sú, og það er vilji meiri hlutans, ég skildi hann alla vega þannig í mörgum af þeim greinum sem þeir fjölluðu um, veiðiskyldu og 50% takmörkun á milli skipa o.s.frv., að minnka möguleikana á að verslun væri með fisk og leigu, sem er út af fyrir sig rétt, þannig að bátarnir veiði, en það skapar hins vegar líka ákveðna galla í sveigjanleikanum og þar af leiðandi möguleikanum á að ná hámarksnýtingu. Það verður að fylgja með í orðræðunni. Um það var ágreiningur.

Eins var ágreiningur um línuívilnunina. Þar voru bátar sem vildu geta nýtt tæknina en fá engu að síður þessa aukningu. En þarna er verið að ganga þá leið að reyna að auka vinnu í landi við það að nýta vinnukraft manna frekar en nota ekki þekkta tækni. Annars vegar er það jákvætt að auka atvinnu en það er svolítið sérkennilegt að minnka hagkvæmni og afköst í leiðinni. Þetta stangast svolítið á og rekst hvað á annars horn.

Varðandi vinnsluskylduna á uppsjávarfiski, eins og makríl til að mynda, verð ég að taka undir það, eins og kemur fram í ágætri umsögn minni hlutans, að um óþarfa forsjárhyggju sé að ræða. Hins vegar er það rétt að þau fyrirtæki sem hafa verið á þessum markaði hafa gjarnan bent á að eðlilegt væri að setja á þetta hefðbundin aflamarkskerfi, menn mundu þá fara að veiða þetta með meiri skynsemi. Í staðinn fyrir að moka þessu upp og fara í bræðslu mundu menn sjá meiri möguleika á að nýta það til manneldis og hafa menn jafnvel nefnt tölur eins og 6–8 milljarða í því sambandi. Ég held að það sé hins vegar óþörf forsjárhyggja að færa þetta vald til ráðherra.

Ágætlega hefur verið farið yfir 5. og 6. liðinn, sem talinn er upp í meirihlutaálitinu, um að auka veiðiskylduna og einungis um 50% megi færa á milli skipa. Þetta þýðir að minni markaður verður á leigumarkaði og þar af leiðandi verður aðgengi verra fyrir þá sem vilja fara nýir inn í greinina, telja sig hafa getu til þess, eða fyrir þá sem hafa hingað til haft atvinnu og viðurværi sitt af þeim markaði. Það kom reyndar fram hjá þó nokkrum af þeim sem komu fyrir nefndina að þetta væri eitt af því sem væri æskilegt að auka. Þarna togast því svolítið á það annars vegar að menn hafa mikinn áhuga á því að minnka verslun með þetta, að menn geti leigt frá sér réttinn, og ég tek fyllilega undir það að það er æskilegt. En í leiðinni verða menn að átta sig á því að það geti takmarkað framboð á leigumarkaði og minnkað nýliðun og jafnvel tekið möguleikana frá fyrirtækjum sem nú þegar hafa starfað á þessum markaði með því að leigja til sín aflaheimildir.

Um veiðistjórnina á skötuselnum má segja margt og þar hefur svo sem margt verið sagt. Það er kannski auðveldast að fjalla um að þetta er ekki í anda þess sem Hafrannsóknastofnun hefur ráðlagt, þetta eru um 80% umfram það. Það er kannski svolítið merkilegt við vinnsluskylduna, sem ég nefndi hér áðan í sambandi við uppsjávarfiskinn, og kemur það fram í meirihlutaálitinu, ef ég má vitna í það beint, frú forseti:

„Það er mat meiri hlutans að mikilvægt sé að ganga með ábyrgum hætti um nytjastofna sjávar og hlúa að þeirri ímynd sem við höfum á alþjóðavettvangi sem ábyrg fiskveiðiþjóð.“

Ég tek fyllilega undir þetta. Það kom fram, og við höfum rætt það í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, að þessi alþjóðavottun — við erum búin að lýsa yfir að við ætlum að vera með ákveðna prósentu af veiði næstu fimm árin, eða 20% regla, að það er óásættanlegt að við ætlum að fara að rugga þeim bát út af þessari einu nytjategund. Það er merkilegt að velta því fyrir sér, í ljósi þess að ef við fjöllum um skötuselinn annars vegar — að taka þessa setningu sem ég las hér upp áðan um vinnsluskylduna, að ekki skulu sömu rökin gilda um þetta. En í meirihlutaálitinu kemur fram, og það kom fram í ræðum, að þetta sé bara bráðabirgðaákvæði og skipti engu máli. Er þetta eitt dæmið um það að ríkisstjórnin sé að reyna að sýna fram á að hún sé að breyta einhverju til þess að geta breytt, breytinganna vegna, en ekki skipti eins miklu máli hvernig það fer. Jafnvel hefur það verið sagt hér að til þessa komi ekki ef Hafrannsóknastofnun lýsi því yfir að þetta sé hæpið.

Í því sambandi er kannski rétt að vitna til bréfs sem var lagt fram í nefndinni, og var svarbréf Hafrannsóknastofnunar til Landssambands íslenskra útvegsmanna. Með leyfi virðulegs forseta, langar mig að vitna til þess:

„Miðað við nýliðun undanfarinna ára og útbreiðslu stofnsins telur Hafrannsóknastofnun að um 2.500 tonna ársafli úr skötusel verði nálægt hámarksafrakstursgetu stofnsins. Þó ekki liggi fyrir nákvæmt afrakstursmat miðað við þá nýliðun mun aukning afla í 2.500 tonn á næstu árum því að öllum líkindum leiða til þess að mjög gangi á uppvaxandi árganga og að stofninn fari hratt minnkandi. Eins og venja er með ráðgjöf stofnunarinnar miðast hún við ástand og stærð stofnsins á hverjum tíma og tillögur um hámarksafla verða því lægri við slíka veiði en ella yrði.“

Það er ljóst að hér er sterklega varað við að ganga svona langt og að stofninn þoli ekki þá veiði.

Það hefur líka verið fjallað hér um að ástæðan fyrir þessu sé m.a. ný og meiri útbreiðsla og á nýjum svæðum og bent hefur verið á að það gildir um aðrar tegundir líka. Vegna þeirrar fyrirspurnar svarar Hafrannsóknastofnun, með leyfi forseta:

„Af þessu er ljóst að þær breytingar sem orðið hafa í veiðum og útbreiðslu skötusels á undanförnum árum eiga sér hliðstæðu í a.m.k. nokkrum tegundum nytjastofna, svo sem ýsu, ufsa, karfa, blálöngu og gulllaxi.“

Það má velta því fyrir sér hvort sömu rök eiga að gilda um úthlutun aflaheimilda í þessum tegundum líka.

Ég ætla ekki að lengja mál hér meira í dag en orðið er, ég enda kannski á gullkarfanum og djúpkarfanum, sem var 8. breytingin af því sem er í frumvarpinu. Þar förum við yfir það í minni hlutanum að út af fyrir sig er sjálfsagt mál — og m.a. vegna alþjóðlegrar skuldbindingar hafa menn bent á að það sé nauðsynlegt, og nú vil ég aftur vitna til þess sem ég var að tala um skötuselinn og línuívilnunina, það þarf að vera einhver lógík í þessu, einhver önnur en hundalógík. Það eru aftur á móti ákveðnir gallar sem fylgja þessari skiptingu. Annars vegar hefur reynst erfitt að þekkja muninn og hins vegar eru sum skip sem ekki munu geta nýtt sér þær heimildir. Væntanlega gerist það að leiga mun aftur færast í vöxt og framsal og kaup og sala, þannig að enn og aftur tekur fer frumvarpið í ýmsar áttir í þessu máli.

Ég ætla að ljúka máli mínu á því að leggja það til, eins og kemur fram í áliti minni hlutans, að þessu máli verði vísað frá og næsta mál tekið fyrir. Rökstuðningurinn er sá sami og ég nefndi hér í upphafi, ég held að það væri eðlilegast að bíða eftir sátt og sáttagjörð sem ég vænti mikils af og ég hef trú á að geti orðið. Þrátt fyrir að vissulega megi kenna öllum aðilum um, bæði LÍÚ og ríkisstjórninni, að fara harkalega inn í sína hagsmunabaráttu eða í tilfelli ríkisstjórnarinnar harkalega inn í sínar breytingarhugmyndir, tel ég langskynsamlegast að menn dragi það allt til lands, allar þær yfirlýsingar á báðum vígstöðvum, setjist niður í þessari sáttanefnd, finni þær niðurstöður sem menn geta orðið ásáttir um og reyni síðan að koma með frumvarp sem byggist á því hér inn í þingið. Ég vænti þess að þá mundu ekki einhver 45–55% þjóðarinnar vera sátt við það sem í gangi er á hverjum tíma eða jafnvel minna heldur mundum við kannski sjá töluna fara upp í 70%. Þá gæti þessi mjög svo mikilvæga atvinnugrein okkar búið við rekstraröryggi lengur en á milli kosninga.