138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

fjárhagsvandi sveitarfélaga.

[10:57]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Svarið sem hæstv. ráðherra gefur er að staðan sé grafalvarleg en það sé ekki komið að því að taka næstu skref, þau séu þó í farvatninu og hugsanlega komi niðurstaða fyrir helgi. Þetta er einmitt staðan sem fulltrúar frá Álftanesi upplýstu okkur um í þingflokki framsóknarmanna í gær. Spurning mín lýtur að því að það þýðir ekki að meðhöndla sveitarfélögin með misjöfnum hætti. Þó að Álftanes sé tiltölulega lítið sveitarfélag miðað við önnur sveitarfélög sem eru í miklum vanda og hafa bæði Reykjanesbær og Hafnarfjörður verið nefnd í fjölmiðlum sem dæmi. Þau eru fleiri og þá þarf að meðhöndla þau öll jafnt. Að mínu mati er ekki hægt að taka Álftanes með valdboði og sameina það öðru sveitarfélagi nema hið sama verði látið ganga yfir stærri sveitarfélög. Spurning mín er því: Er þá ekki betra að Álftanes hafi frumkvæðið sjálft og það verði ekki sameinað beint með valdboði? Ef það er sameinað með valdboði hlýtur næsta skrefið að vera að sameina líka þessi stærri sveitarfélög (Forseti hringir.) með valdboði. Hvar erum við þá lent, virðulegi forseti?