138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:34]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég get lítið að því gert þó að hann sé þeirrar skoðunar að ég viti ekki um hvað málið snúist, það verður bara að hafa sinn gang hvað það varðar. Ég ætla hins vegar að reyna að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín.

Í fyrsta lagi varðandi skötuselinn og hvort ég gæti hugsað mér að slíkt gæti átt við um fleiri tegundir: Já, ég get gert það. Ég get vel ímyndað mér það og ekki bara ímyndað mér, ég sé alveg fyrir mér að það þurfi að gerast fyrr en síðar að búinn verði til ákveðinn leigupottur, leiguúthlutun í öðrum tegundum, t.d. í þorski, fyrir þá sem gera út á leigumarkað en þurfa að leigja hvert kíló dýrum dómum af þeim sem hafa fengið úthlutanir fyrir. Ég get vel séð það fyrir mér og ég get vel ímyndað mér að hægt væri að gera það með tiltölulega réttlátum hætti að alltaf verði tekinn ákveðinn hluti af hverri tegund fyrir sig og settur á leigumarkað.

Kerfið sem við höfum haft undanfarin ár hefur búið til aðra tegund af útgerð, þ.e. leiguútgerð. Mér finnst sanngjarnt að sjómenn og skipstjórar sem gera út sín skip og þurfa að leigja sér veiðiheimildir til að hafa lífsviðurværi fái að leigja þær veiðiheimildir af samfélaginu, af ríkinu, frekar en að vera undir það komnir að fá hugsanlega veiðiheimildir frá öðrum útgerðum og á verði sem er ákveðið einhliða. Ég get alveg séð það fyrir mér að það megi þróa þessar hugmyndir yfir í aðrar tegundir en skötusel.

Varðandi þjóðarhaginn og einstaklingana stend ég við það að það er og hefur verið markmið stjórnar fiskveiða árum og áratugum saman að nýta eigi þessa auðlind með þjóðarhag í huga fyrst og fremst (Forseti hringir.) og ég er þeirrar skoðunar.