138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:13]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast ekkert um að hv. þingmaður tali frá eigin hjarta og sé heiðarleg í málflutningi sínum en það er ekkert rangt við það að ganga erinda einhverra. Ég skammast mín ekkert fyrir það að ganga erinda Öryrkjabandalagsins. Ég vil gjarnan ganga erinda lágtekjufólks, almenns launafólks á Íslandi og öll erum við að reyna að stuðla að því að Alþingi setji lög sem gagnist þjóðinni allri og almannahag sem ég tel að þetta kerfi geri ekki. Deilan snýst ekki um úthlutun á aflaheimildum og varnir gegn ofveiði, við erum alveg sammála um það. Spurningin snýst um markaðsvæðingu kerfisins og mér finnst þetta sýna okkur vel framan í Sjálfstæðisflokkinn og forgangsröðun hans, hvernig hann bregst við þessu litla frumvarpi. Þetta fjallar ekkert um 500 tonn eða 2.000 tonn. Þetta fjallar um það að Sjálfstæðisflokkurinn telur að verið sé að ógna markaðsvæddu fiskveiðikerfi.

Ég spyr hv. þingmann: Finnst hv. þingmanni ekki skipta máli núna, ekki síst á krepputímum, að við tryggjum almannaeign á auðlindum Íslands til lands og sjávar?