138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

orð ráðherra um sjávarútvegsfyrirtæki.

[13:44]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hirði ekki um að taka þátt í þessum ágæta orðaleik en hitt er ljóst og það er einfaldlega staðreynd að skuldir sjávarútvegsins eru mjög miklar. Þær eru til komnar ekki vegna fjárfestingar í greininni heldur vegna fjárfestingar annars staðar. (Gripið fram í: Það er rangt.) Það er líka ljóst að útgerðin heldur því fram á hverjum degi að hún þoli ekki hóflega innköllun veiðiheimilda (Gripið fram í.) og að fyrningarleið hljóti í hvaða formi sem er að ganga af greininni dauðri. (Gripið fram í.) Það er þessi sérhagsmunavarsla sem ég var að tala um og það er gegn henni sem ég var að tala. Það er auðvitað mjög brýnt að við reynum að nálgast umræðu um sjávarútveginn út frá almannahagsmunum en ekki sérhagsmunum hinna fáu. Það hefur Sjálfstæðisflokknum aldrei nokkurn tíma tekist.